Akureyrarbær er að kanna möguleika á því að niðurgreiðslur fargjalda í Hríseyjaferjuna verði auknar þannig að fólk geti farið út í Hrísey án endurgjalds.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri vonast til að þetta verði til þess að fleiri ferðamenn, þá væntanlega íslenskir, sæki eyjuna heim í sumar og atvinna fólks við ferðaþjónustu glæðist.
Eyjasamfélögin sem tilheyra Akureyrarbæ, Hrísey og Grímsey, hafa orðið fyrir áföllum í atvinnulífinu. Mikill kvóti var seldur frá Grímsey snemma vetrar og húsnæði Hríseyjar Seafood brann í gærmorgun. Ferðaþjónusta hefur verið mikilvæg stoð í atvinnulífinu á sumrin á báðum stöðunum en nú ríkir óvissa um ferðamennskuna í sumar.
Í umfjöllun um málefni Hríseyjar eftir brunann í gær í Morgunblaðinu í dag segist Ásthildur eigi að síður vera bjartsýn á framtíð beggja samfélaganna. Um Grímsey segir hún: „Íbúarnir þar eru þrautseigasta fólk sem ég hef hitt. Staðan er viðkvæm og erfið þegar fólki hefur fækkað mikið en í vor hafa margir snúið til baka. Grímsey er öflug verstöð og ég tel að langt sé í að þar verði ekki byggð.“