Stuðningsmunur gæti verið ofmetinn

Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson eru ólíkir frambjóðendur …
Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson eru ólíkir frambjóðendur að mati Eiríks Bergmanns. Samsett mynd

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, telur að kjörsókn í forsetakosningum í ár gæti orðið dræmari en í síðustu forsetakosningum.

Vísbendingar um yfirgnæfandi stuðning við sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson, gefi líkast til rétta mynd af raunverulegum stuðningi við frambjóðendurna. Hins vegar sé möguleiki á því að munurinn á frambjóðendunum sé ofmetinn.

Forsetakosningar fara fram 27. júní næstkomandi þar sem val kjósenda stendur milli Guðna Th. Jóhannessonar, sitjandi forseta, og Guðmundar Franklíns Jónssonar, viðskipta- og hagfræðings.

„Hér er um að ræða forsetakjör sem skiptist þannig að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar ætlar að velja annan frambjóðandann, sitjandi forseta. Hinn er mjög augljóslega áskorandi, frekar af jaðri heldur en innan úr einhverjum meginstraumi,“ segir Eiríkur.

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur.
Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann telur að þrír hópar gætu hugsanlega stutt Guðmund Franklín í komandi kosningum:

„Sá hópur sem hefur verið í andstöðu við þetta hefðbundna frjálslynda lýðræði Vesturlanda á undanförnum árum og hefur viljað sjá ákveðna valkosti við það stjórnmálakerfi allt saman,“ segir hann. Hópurinn kunni að styðjast við íhaldssamari og þjóðernissinnaðri áherslur en aðrir hópar.

Mögulega staðfastari kjósendur

„Síðan er ákveðin þögul andstaða gegn Guðna og þessum frjálslyndu meginstraumsgildum, í anda sem maður heyrir ekki mikið en er til staðar. Það gæti verið hópur sem kysi gegn Guðmundi,“ segir hann.

„Þriðji þátturinn í þessu er mögulega sá að kjósendur Guðmundar telji sig fremur eiga erindi á kjörstað. Þeir séu jafnvel á einhvern hátt staðfastari. Og margir stuðningsmenn Guðna gætu reynst værukærir og talið að að honum steðji engin sérstök ógn í þessum kosningum.“

Að lokum breyti það eðli kosninganna að framboð Guðmundar sé eina mótframboðið gegn sitjandi forseta, en fáeinum vikum fyrir framboðsfrest voru fram komin átta forsetaframboð sem dregin voru til baka eða náðu ekki fram að ganga.

Frambjóðendurnir hafa ólíka sýn á forsetaembættið sem markar helsta muninn milli þeirra. Guðmundur Franklín hefur gefið til kynna að hann muni nýta málskotsrétt forseta í auknum mæli, en það hefur einungis verið gert þrisvar áður, tvisvar í Icesave-málinu árið 2011 og í fjölmiðlafrumvarpinu árið 2004. Auk þess muni hann leggja fram frumvörp með vísan til 25. greinar stjórnarskrárinnar.

Óhefðbundnari sýn

Guðmundur hefur miklu óhefðbundnari sýn á forsetaembættið. Hann virðist líta á það sem valdaembætti á borð við þá forseta sem eru í ríkjum þar sem er forsetaræði. En á Íslandi er þingræði og hugmyndir Guðmundar um forsetaembættið ganga gegn ríkjandi hugmyndum um stjórnskipulag Íslands. Á meðan Guðni er alfarið innan hefðbundins skilnings á stjórnskipaninni sem byggir á þingræði og mjög valdalitlu forsetaembætti.“

Fari svo að Guðmundur Franklín leggi fram lagafrumvarp yrði komin upp stjórnskipuleg óvissa, sem rekja mætti til óskýrleika stjórnarskrárinnar. Ákvæði stjórnarskrárinnar hafa lengi vel verið túlkuð í samræmi hvert við annað og samkvæmt venju, í stað bókstafstúlkunar.  

„Hún er skrifuð inn í allt annað umhverfi heldur en við búum við í dag. Þetta er stjórnarskrá sem flutti vald frá einvöldum konungi til þings, og síðan tökum við hana upp með smávægilegum breytingum. En það gerir það að verkum að það er örðugt fyrir okkur að lesa þessa stjórnarskrá og skilja stjórnskipulag landsins út frá aðeins einstaka ákvæðum hennar, úr samhengi við aðrar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert