Fórnarlamb stuðningsfulltrúa fer fram á miskabætur

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

Eitt af fórnarlömbum stuðningsfulltrúans sem var dæmdur í fimm ára fangelsi í Landsrétti fyrir kynferðisbrot hefur falið lögmanni sínum að óska eftir bótum úr hendi þeirra sem bera ábyrgð á málinu.

Þetta segir Sævar Þór Jónsson lögmaður við mbl.is en stuðningsfulltrúinn, Guðmundur Ellert Björnsson, braut gegn tveimur umbjóðendum hans.

Einnig er verið að kanna hvort hinn umbjóðandi hans muni einnig fara fram á bætur.

„Við erum að kanna hvar ábyrgð borgarinnar liggur í málinu, ef hún er fyrir hendi, og jafnframt líka gegn gerandanum. Það er verið að meta næsta skref,“ segir Sævar Þór.

Hann segir umbjóðanda sinn vera ósáttan við borgina. Skoða þurfi hvort það hefði mátt með einhverjum hætti koma í veg fyrir eða minnka brotin sem voru framin gegn honum, að sögn Sævars Þórs, en langur tími leið frá því tilkynnt var um málið þangað til lögreglurannsókn hófst.

„Við höfum haldið því fram að ábyrgðin liggur hjá borginni eða barnaverndaryfirvöldum,“ bætir hann við og bendir á að eftir að verkferlar hjá borginni voru kannaðir kom í ljós að þeir voru ekki í lagi.

Hann segir yfirvöld í borgarmálum ekki hafa lagt fram afsökunarbeiðni eða sýnt viðleitni til að tryggja að samskonar mál gerist ekki aftur. „Þetta er ekki bara vandi borgarinnar, heldur barnaverndarkerfisins í heild sinni.“

Spurður út í mögulega upphæð miskabóta segir hann þær venjulega vera tiltölulega lágar. Allur gangur sé samt á því. „Þetta geta verið hundrað þúsund kallar upp í milljónir en málið er algjörlega á frumstigi.“

Dómur Landsréttar

Sterkur og einbeittur brotavilji

„Ákærði  er  fæddur  í  febrúar  árið  1975  og  hefur  ekki  áður  sætt  refsingu,“ segir í dómi Landsréttar. „Brot hans gagnvart öllum brotaþolum voru  alvarleg, beindust gegn mikilvægum  hagsmunum þeirra og voru til þess fallin að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Gagnvart A og D voru þau auk þess margendurtekin og stóðu yfir í langan tíma en af því verður ráðið að vilji ákærða til að brjóta gegn þeim hafi verið sterkur og einbeittur. Jafnframt átti brot ákærða gagnvart A sér stað í skjóli þess trúnaðartrausts sem ríkti milli þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert