Frítt í Hríseyjarferjuna út júní

Frítt verður í Hríseyjarferjuna Sævar frá og með deginum í …
Frítt verður í Hríseyjarferjuna Sævar frá og með deginum í dag til og með 30. júní nk. mbl.is/Sigurður Bogi

Frítt verður í ferjuna Sævar sem siglir frá Árskógssandi til Hríseyjar frá og með deginum í dag og út júní. 

Stjórn Akureyrarstofu samþykkti á fundi sínum á miðvikudag að veita allt að tveimur milljónum króna í styrk til Ferðamálafélags Hríseyjar til að gera því kleift að fella niður fjargjöld í ferjuna í samstarfi við rekstraraðila hennar. 

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir í samtali við mbl.is að ákvörðunin sé tekin til að örva umferð til eyjunnar, en einnig sem viðbrögð við brunanum sem kom upp í gamla frystihúsinu í eyjunni í lok maí. Þá standa viðræður enn yfir við eigendur Hrísey Seafood, sem voru með fiskvinnslu í frystihúsinu, sem var stærsti vinnustaðurinn í eyjunni. 

Rannsókn á upptökum brunans stendur enn yfir og bíður rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri m.a. eftir lokaniðurstöðu tæknideildar. Sam­kvæmt fyrstu niður­stöðu rann­sókn­ar tækni­deild­ar lög­reglu og Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar varð eld­ur­inn lík­lega af manna­völd­um.

Ásthildur segir að með því að hafa frítt í ferjuna sé verið að styðja við ferðaþjónustu í eyjunni og kveikja áhuga Íslendinga á að heimsækja Hrísey en nýleg könnun leiddi í ljós að um 46% þjóðarinnar hafa aldrei til Hríseyjar komið og innan við 18% hafa heimsótt Hrísey á síðustu fimm árum. 

Siglingin tekur aðeins um 15 mínútur og eru ferðir á tveggja tíma fresti. Í Hrísey felast fjölmörg tækifæri til ferðaþjónustu og útivistar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert