Hvorugur forsetaframbjóðendanna mun halda opinbera kosningavöku fyrir stuðningsmenn að kvöldi kjördags líkt og hefð er fyrir. Ástæða þess er samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar, en ekki er heimilt að hafa skemmtistaði opna lengur en til klukkan 23.
Í samtali við mbl.is segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að reglurnar taki einnig til sala sem leigðir eru út í einkasamkvæmi, enda séu þeir jafnan starfsleyfisskyldir. „En ef þetta er í heimahúsi eða einkasamkvæmi er erfitt að hafa skoðun á því,“ segir Víðir.
Samkvæmt upplýsingum frá kosningateymi Guðna Th. Jóhannessonar verður sem fyrr segir engin kosningavaka á vegum framboðsins, en forsetinn mun fylgjast með gangi mála í góðra vina hópi. Þá eru stuðningsmenn hvattir til að gera sér glaðan dag, hitta vini eða fjölskyldu og halda þannig kjördag hátíðlegan í smærri hópum.
Guðmundur Franklín Jónsson, mótframbjóðandi hans, segir í samtali við mbl.is að enginn opinber viðburður verði haldinn en hann á von á að stuðningsmenn um allt land haldi sín eigin partí.