53.510 hafa kosið utan kjörfundar á landsvísu en það er nýtt met í slíkri atkvæðagreiðslu. Bara í dag mættu 7.581 í utankjörfundaratkvæðagreiðslu og er þar um annað met að ræða, mesta fjöldann sem sótti í slíka atkvæðagreiðslu á einum degi, að sögn Bergþóru Sigmundsdóttur, kjörstjóra sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta gekk ótrúlega vel. Bæði var starfsfólkið alveg einstaklega liðlegt og þjált og kjósendur sérstaklega ljúfir. Bæði starfsmenn og kjósendur voru til fyrirmyndar,“ segir Bergþóra um framkvæmdina.
Aukið álag var viðbúið. „Ég bjóst við því að það yrði aukin aðsókn vegna þess að þetta er ferðatími,“ segir Bergþóra sem jánkar því að útbreiðsla kórónuveiru hafi líklega einnig haft þau áhrif að fólk hafi drifið sig að kjósa. Kjörstaðir voru sömuleiðis fleiri en áður vegna veirunnar.
Opið verður fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu frá 10-17 á morgun en þó einungis fyrir þá kjósendur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Bergþóra vekur athygli á því að þeir sem búa í norðausturkjördæmi þurfa að koma fyrir klukkan hálfþrjú til þess að atkvæðin þeirra komist örugglega til skila.
Formlegar kosningar fara fram á morgun en samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir RÚV segjast 93% ætla að kjósa Guðna Th. Jóhannesson, sitjandi forseta, en 7% Guðmund Franklín Jónsson forsetaframbjóðanda.