89 manns greiddu atkvæði í sóttkví

Kjósendur í sóttkví óku inn í sérstakan „kjörklefa“ sem útbúinn …
Kjósendur í sóttkví óku inn í sérstakan „kjörklefa“ sem útbúinn var með grindverki og plasthlíf. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

89 kjósendur sem eru í sóttkví nýttu atkvæðisrétt sinn í forsetakosningunum og kusu á bílastæði í Hlíðasmára í Kópavogi síðdegis. Fyrirkomulagið gekk vel að sögn Bergþóru Sigmundsdóttur, kjörstjóra hjá embætti sýslumanns. 

Úrræðið var kynnt eftir hádegi í dag og nýttist þeim 196 sem eru í sóttkví og á kosningaaldri og áttu eftir að greiða atkvæði. 

Bergþóra segir verkefnið hafa verið svipað og þegar farið er inn á dvalarheimili en viðurkennir að vissulega hafi kringumstæðurnar verið sérstakar. Kjósendur óku inn í sérstakan „kjörklefa“ sem útbúinn var með grindverki og plasthlíf. Bergþóra, lögfræðingur og fagstjóri hjá sýslumanni aðstoðuðu kjósendur við að greiða atkvæði sem bentu á stimpil með nafni frambjóðanda. 

Bergþóra Sigmundsdóttir kjörstjóri hjá sýslumanni setur atkvæði kjósanda í kjörkassann.
Bergþóra Sigmundsdóttir kjörstjóri hjá sýslumanni setur atkvæði kjósanda í kjörkassann. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Þeir bentu til vinstri eða hægri. Við gerðum þetta mismunandi, stundum var þessi vinstra megin og hinn hægra megin og öfugt,“ segir Bergþóra. Allt var gert með handahreyfingum í gegnum bílrúðu á bíl kjósanda. 

Kjörstaðurinn nýstárlegi var opinn milli klukkan 15 og 18:30 og verða atkvæðin talin með utankjörfundaratkvæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert