89 kjósendur sem eru í sóttkví nýttu atkvæðisrétt sinn í forsetakosningunum og kusu á bílastæði í Hlíðasmára í Kópavogi síðdegis. Fyrirkomulagið gekk vel að sögn Bergþóru Sigmundsdóttur, kjörstjóra hjá embætti sýslumanns.
Úrræðið var kynnt eftir hádegi í dag og nýttist þeim 196 sem eru í sóttkví og á kosningaaldri og áttu eftir að greiða atkvæði.
Bergþóra segir verkefnið hafa verið svipað og þegar farið er inn á dvalarheimili en viðurkennir að vissulega hafi kringumstæðurnar verið sérstakar. Kjósendur óku inn í sérstakan „kjörklefa“ sem útbúinn var með grindverki og plasthlíf. Bergþóra, lögfræðingur og fagstjóri hjá sýslumanni aðstoðuðu kjósendur við að greiða atkvæði sem bentu á stimpil með nafni frambjóðanda.
„Þeir bentu til vinstri eða hægri. Við gerðum þetta mismunandi, stundum var þessi vinstra megin og hinn hægra megin og öfugt,“ segir Bergþóra. Allt var gert með handahreyfingum í gegnum bílrúðu á bíl kjósanda.
Kjörstaðurinn nýstárlegi var opinn milli klukkan 15 og 18:30 og verða atkvæðin talin með utankjörfundaratkvæðum.