Kaus í gegnum bílglugga en missti af útskriftinni

Einhver röð myndaðist við tjaldið sem sóttkvíar-kjósendur fá að kjósa …
Einhver röð myndaðist við tjaldið sem sóttkvíar-kjósendur fá að kjósa í. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Í stað þess að mæta á útskriftarathöfn í Háskóla Íslands, þar sem hann átti að útskrifast með bakkalárpróf í lögfræði, kaus Teitur Gissurarson í forsetakosningum í gegnum bílglugga í tjaldi. Ástæðan er einfaldlega sú að hann er einn af þeim 300 sem þurftu að fara í sóttkví í gær vegna smits sem kom upp hjá knattspyrnukonu. Teitur er í hópi 89 kjósenda í sóttkví sem nýttu sér úrræðið. 

Teitur og fjölskylda hans voru öll í útskriftarveislu í Breiðholti þar sem smitaða konan var og þurftu því öll fjögur að fara í sóttkví þar sem þau eru enn. Þau fóru í próf fyrir veirunni í gær, eins og flestir sem í veislunni voru, og bíða nú niðurstaðna. 

Tilkynnt var síðdegis í dag að þeir sem væru í sóttkví gætu kosið í gegnum bílglugga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Fram að því leit út fyrir að þau sem lentu í sóttkví í gær gætu ekki fengið að kjósa. 

Tilkynnt var um það síðdegis í dag að þeir sem …
Tilkynnt var um það síðdegis í dag að þeir sem væru í sóttkví gætu kosið í gegnum bílglugga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Hefði verið svekktari ef kosningarnar væru meira spennandi

Teitur segir að hann hafi ekki verið neitt sérstaklega svekktur yfir því að fá ekki að kjósa. 

„Miðað við hversu hratt þetta breiddist allt út fannst mér alveg skiljanlegt að það væri ekki hægt að bregðast við þessu með svona skömmum fyrirvara. Kannski hefði manni verið minna sama ef það hefði verið útlit fyrir að þetta yrðu meira spennandi kosningar. Án þess að ég viti nokkuð um útkomuna þá benda skoðanakannanir alla vega ekki til þess að það verði mjög mjótt á mununum og það var kannski þess vegna sem maður var slakari yfir þessu en ef það hefði ekki verið raunin. Ég er líka með jafnaðargeð svo ég tek bara því sem að höndum ber.“

„Faglega að þessu staðið“

Teitur segir að þessi nýstárlega kosningaaðferð hafi gefið góða raun. Hann hafi ekki þurft að bíða nema í tíu mínútur eftir að komast að. 

„Þetta var bara flott. Þetta gekk allt mjög vel fyrir sig og það var faglega að þessu staðið.“

Fyrirkomulagið gekk vel fyrir sig og röðuðu kjósendur sér í …
Fyrirkomulagið gekk vel fyrir sig og röðuðu kjósendur sér í snyrtilega bílaröð. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Eins og áður segir eru Teitur og fjölskylda búin að fara í veirupróf. Þau hafa ekki fengið niðurstöður en finna ekki fyrir einkennum. 

„Mér skilst að þjónustutími hafi verið rýmkaður á einhverjum heilsugæslustöðvum þannig að við hér og flestir í minni kreðsu fóru í próf strax í gær. Sumir eru meira að segja búnir að fá neikvæða niðurstöðu til baka.“

Teitur þurfti að blása útskriftarveisluna sína af vegna sóttkvíarinnar en fjölskyldan heldur litla veislu heima í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert