Pétur Magnússon
Guðni Th. Jóhannesson kom hjólandi frá Bessastöðum á kjörstað í Álftanesskóla klukkan níu í morgun. Hann segir kjördaginn leggjast afar vel í sig og hvetur alla sem geta til að nýta kosningaréttinn.
„Þetta er dýrmætur réttur og ég hvet alla til að nýta hann,“ sagði Guðni.
Forsetinn fylgdi sóttvarnareglum á kjörstað af mikilli samviskusemi, og var léttur í bragði þegar mbl.is náði af honum tali.
Hann segir að fjölskyldan á Bessastöðum ætli sér að njóta dagsins í góða veðrinu, og hjálpa þeim sem þurfa hjálp við að komast á kjörstað.
„Þetta verður allt á mjög lágstemmdum nótum,“ segir Guðni, en í kvöld munu nokkrir vinir og stuðningsfólk koma saman og gera sér dagamun. „Það er engin skipulögð kosningavaka í ljósi ástandsins og þeirra hamla sem eru á mannamótum núna.“ Hann segist engu að síður vera bjartsýnn fyrir kvöldinu.
Forsetinn segir það áhyggjuefni og álitamál að sú staða geti komið upp að fólk geti ekki nýtt sinn kosningarétt. Á þriðja hundrað manns mun ekki geta greitt atkvæði í dag vegna sóttkvíar, en Guðni segir að það sé umhugsunarefni að ekki hafi verið hugað að þessu fyrr en nú.