Guðmundur Franklín Jónsson forsetaframbjóðandi kveðst vera ánægður með fyrstu tölur kvöldsins. „Ég bjóst nú ekki við tveggja stafa tölu, og kannski – nóttin er ung – og ég vonast til að þetta fari kannski aðeins upp.“
Þetta kom fram í viðtali við RÚV í kvöld. Hann kvaðst vera þakklátur fyrir hvert atkvæði, sem væri atkvæði gegn spillingu.
Guðmundur sagði að það væri mikilvægt að nýta þennan rétt til að bjóða sig fram svo forsetaembættið sé ekki bara á færibandi í fjögur ár. „Ég óska bara Guðna og fjölskyldu til hamingju. Megi hann lengi lifa.“
Spurður hvort hann hefði haft trú á sigri í kosningunum sagði Guðmundur: „Já og nei skilurðu. Það getur allt gerst í heiminum. En í þessu tilfelli þá ætla örlagadísirnar mér eitthvað annað og eru að kippa í hálsmálið á mér og enginn veit sína framtíð fyrir fram.“
Hann fullyrti enn fremur að allir fjölmiðlar landsins hefðu staðið á bak við Guðna. „Þú getur bara lesið fjölmiðlana undafarinn mánuð og þá veistu það. Við þurfum þá ekkert að hugsa meira um það. En þá er þetta bara búið í kvöld; eða reyndar ekki búið en mér sýnist þetta vera nokkurn veginn skýrt.“