„Við erum búin að vera í sambandi við dómsmálaráðuneytið og sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru með hugmyndir sem þeir eru að vinna að og fengu sóttvarnalegt álit hjá okkur,“ segir Víðir Reynisson.
Verið er að leita leiða til þess að fólk í sóttkví geti nýtt kosningarétt sinn í dag. Víðir segir að nú snúist þetta fyrst og fremst um hvað sé heimilt í þessu lagalega.
„Það eru þarna hugmyndir sem eru framkvæmanlegar sóttvarnalega séð, sýnist okkur, þótt við séum ekki komin með endanlegar tillögur. Þetta snýr fyrst og fremst að lagalegri framkvæmd varðandi kosninguna. Það eru vafaatriði sem menn eru að vinna í núna.“
Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. „Við erum bara að skoða lagarammann hvað þetta varðar og erum í samtali við almannavarnir og yfirkjörstjórnir vegna þessa,“ segir Hjördís en að ekki liggi fyrir hvenær verði komin niðurstaða í málið.
„Eins og staðan er núna eru þetta 196 aðilar á kosningaaldri sem eru í sóttkví,“ segir Víðir og að búið sé að gefa upplýsingar um fjölda í hverju póstnúmeri svo yfirkjörstjórnir hafi upplýsingar um hvaða kjörstaði er rætt um.
„En í kjölfarið á þessu smiti sem greindist í gærkvöldi má búast við að þessi tala hækki svolítið í dag.“