Ljóst er að Guðni Th. Jóhannesson verður endurkjörinn forseti Íslands, en hann nýtur yfir 90% stuðnings kjósenda. Guðni svaraði því neitandi þegar hann var í kvöld spurður hvort hann hefði haft áhyggjur af stöðunni. Hann kveðst hafa gengið til þessara kosninga bjartsýnn og kappsamur.
„Nei, ég þóttist viss um það að sá stuðningur, sú velvild og sá hlýhugur sem ég hef notið undanfarin fjögur ár hyrfi ekki á svipstundu þegar drægi að forsetakjöri,“ sagði Guðni í samtali við RÚV.
Hann segir enn fremur að hann telji að það sé liðin tíð fyrir fullt og allt að sitjandi forseti fái ekki mótframboð. Hann benti einnig á, að meðmælendafjöldi hafi verið óbreyttur frá stofnun lýðveldisins og það sé ekki erfitt að safna þeim meðmælum sem safna þarf í aðdraganda forsetakjörs. Það sé eitthvað sem eigi að ræða sem og annað sem lúti að stöðu forseta.
Guðni segir að hann hafi meira og minna verið sáttur við kosningabaráttuna. Það komi þó fyrir að sumir stuðningsmenn Guðmundar Franklíns Jónssonar hafi viljað styðja hann með ráð og dáð og missi sig jafnvel í því. „Segja eitthvað sem hefði betur verið ósagt og sjá jafnvel eftir því,“ sagði Guðni. Það virðist vera auðveldara að láta fúkyrði falla á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum, og stundum sé of langt gengið.
Guðni játaði því þegar hann var spurður hvort hann hefði orðið reiður á meðan baráttunni stóð. „Þegar mér finnst ómaklega að mér vegið, að ég tali nú ekki um þegar ómaklega er vegið að þeim sem standa manni nærri, þá reiðist ég. En reiði er ekki góður förunautur. Reiði má aldrei ná tökum á manni, allra síst þeim sem gegnir þeirri stöðu sem ég hef gegnt í fjögur ár og gegni nú örugglega áfram næstu fjögur ár,“ sagði Guðni.
Guðni sagði að hann hefði reiðst yfir ummælum sem hefðu fallið um störf eiginkonu hans, Elizu Reid. „Svo er það stundum bara þannig að sumu er best ósvarað. Þá hugsar maður bara þögnin og skömmin geymir þá best.“
„Ég er núna í þeirri stöðu að um eða yfir 90% kjósenda veittu mér stuðning eftir að hafa fylgst með mér í embætti í fjögur ár. Það þykir mér til sannindamerkis um það að rétt sé að halda áfram á sömu braut.“
Hann tekur fram að hann finni fyrir því dag hvern hversu einstakur heiður það sé að gegna þessu embætti. Starfið sé annasamt og hann geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvíli á hans herðum. „Svo lengi sem ég nýt trausts og velvildar kjósenda, líður mér vel. Hvern einasta dag lít ég svo á að ég sé í þjónustu þjóðarinnar,“ sagði Guðni.
Hann segir að hann muni aldrei sitja lengur en 12 ár á stóli forseta. „Nú skulum við horfa til fjögurra ára í senn. Kjörtímabil nýtt hefst 1. ágúst og svo má auðna ráða.“