Hörður: Rio Tinto neitar að aflétta trúnaði á samningi

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Hari

„Það er mjög sérstakt að leggja fram þessa kæru og tjá sig efnislega um samninginn með þessum hætti en vera svo ekki tilbúin að leggja hann á borðið,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, spurður út í kæru Rio Tinto til Samkeppniseftirlitsins. 

Rio Tinto tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði  kært Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins. Segir Rio Tinto að Landsvirkjun hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði. 

„Þetta kemur okkur mjög á óvart, að þeir séu að fara þessa leið með samning sem var gerður fyrir tíu árum að frumkvæði Rio Tinto og eftir að bæði fyrirtæki hafa ráðist í miklar fjárfestingar og tekið á sig langtímaskuldbindingar,“ segir Hörður í samtali við mbl.is. 

„Það gerir okkur erfitt fyrir að tjá okkur efnislega um málið að þeir neita að aflétta trúnaði á samningnum. Við teljum það mikilvægt að aflétta trúnaði svo að Landsvirkjun geti fjallað efnislega um þær ásakanir sem koma þarna fram af þeirra hálfu og við munum áfram hvetja þau til að skoða það,“ segir Hörður og bætir við að honum finnist það sérstakt að leggja fram kæru og tjá sig efnislega um samninginn en vera svo ekki tilbúin að aflétta trúnaði um hann. 

Landsvirkjun.
Landsvirkjun. mbl.is/Jón Pétur

„Við teljum okkur að öllu leyti fara eftir samkeppnislögum á Íslandi og í Evrópu. Þessi samningur var sérstaklega skoðaður af eftirlitsstofnun ESA á sínum tíma en við munum bara fara yfir þetta með lögfræðingum okkur og skoða framhaldið.“

Viðræður Rio Tinto og Landsvirkjunar hafa staðið yfir að undanförnu. Fram kom í tilkynningu Rio Tinto í dag að fyrirtækið hefði „nú kom­ist að þeirri niður­stöðu að Lands­virkj­un sé ekki til­bú­in til að bæta nú­ver­andi raf­orku­samn­ing ISAL sem ger­ir fyr­ir­tækið sjálf­bært og sam­keppn­is­hæft og taka á skaðlegri hegðun og mis­mun­un Lands­virkj­un­ar gagn­vart ISAL“.

Hörður segist ekki geta tjáð sig um samningaviðræðurnar að svo stöddu. 

„Við höfum boðið þeim breytingar á samningnum sem við teljum að komi til móts við þær erfiðu aðstæður sem eru uppi í dag en þeir hafa ekki svarað því,“ segir Hörður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert