Endurspeglar svartsýni en rétt að túlka varlega

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eðlilegt er að fyrirtæki endurmeti virði eigna ef talið er ólíklegt að eignirnar skili tekjum sem réttlæti núverandi mat. Niðurfærsla Rio Tinto vegna álversins í Straumsvík virðist endurspegla svartsýni stjórnenda fyrirtækisins, en rétt er þó að túlka tölurnar varlega þar sem þær gætu verið leikur í samningaviðræðum fyrirtækisins við Landsvirkjun. Þetta segir Gylfi Magnússon, deildarforseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Fyrr í dag birti fyrirtækið árshlutareikning sinn. Þar kem­ur meðal ann­ars fram að það hafi fært niður óefn­is­leg­ar eign­ir vegna ál­vers­ins um 269 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala, eða sem nem­ur 37 millj­örðum ís­lenskra króna. Er þar um að ræða bók­færða eign vegna væntra tekna í framtíðinni. Tel­ur fyr­ir­tækið ekk­ert virði í slíkri eign leng­ur og hef­ur niður­fært virði henn­ar að fullu.

Gylfi segir að ef ólíklegt sé að eignir fyrirtækja skili tekjum sem réttlæti það mat sem hefur verið á eignunum til þess sé eðlilegt að virði eignanna sé endurmetið í reikningum. Ársreikningastaðlar eru nokkuð strangir að sögn Gylfa, en mat stjórnenda um framtíðarhorfur í rekstri getur hins vegar haft talsverð áhrif á virði eigna og þar er bæði svigrúm til að vera svartsýnn eða bjartsýnn.

Gylfi Magnússon, deildarforseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.
Gylfi Magnússon, deildarforseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. mbl.is/Hari

Rio Tinto sendi frá sér yfirlýsingu fyrir viku þar sem fram kom að fyrirtækið myndi kæra Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins vegna markaðsráðandi stöðu þess. Sagði í tilkynningunni að ef Landsvirkjun léti ekki af „skaðlegri hátt­semi sinni“ hefði Rio Tinto ekki ann­an kost en að íhuga að segja upp orku­samn­ingi sín­um og virkja áætl­un um lok­un. 

Gylfi segir að þó að endurskoðendur verði að blessa reikninga fyrirtækisins geti stjórnendur með mati sínu um framtíðahorfur haft nokkurt mat á virði eigna og í tilfellum sem þessum geti það verið hluti af samningaviðræðum við Landsvirkjun. Segir hann því rétt að túlka niðurfærsluna varlega, en tekur þó fram að niðurfærslan endurspegli engu að síður svartsýni stjórnenda Rio Tinto með reksturinn í Straumsvík.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK