Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt það til við Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, að hann víki úr starfi lögreglustjóra. Þetta fullyrðir Ríkisútvarpið.
Ólafur Helgi tekur ekki afstöðu til fullyrðingarinnar í samtali við mbl.is. „Ég tjái mig ekki um málið að öðru leyti en því að ég tel mikilvægt að það ríki friður um starfsemi um embættisins,“ sagði hann og kvaðst ekki vilja staðfesta hvort honum hefði borist þessi tillaga eður ei.
Eins og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum að undanförnu hefur dómsmálaráðherra á borði sínu kvartanir frá starfsmönnum lögreglunnar á Suðurnesjum. Þar er kvartað undan framgöngu Ólafs sem lögreglustjóra og einnig undan einelti af hálfu tveggja annarra starfsmanna hjá embættinu, meðal annars Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirlögfræðings embættisins.