Dómsmálaráðherra hefur á borði sínu kvartanir frá starfsmönnum lögreglunnar á Suðurnesjum. RÚV segir frá og lýsir ýmsum málatilbúnaði er varðar innbyrðis átök innan embættisins. Þar blandast inn kvartanir m.a. vegna eineltis, ólögmætra uppsagna og bótaskyldu því tengdri.
Þrír starfsmenn munu vera í veikindaleyfi vegna málsins og vísað er til heimilda sem segja vinnustaðinn varla starfhæfan.
Skýrsla um samstarfsörðugleika stjórnenda hjá lögreglunni á Suðurnesjum hefur verið unnin af ráðgjafafyrirtækinu Attentus, en samkvæmt RÚV hefur skýrslan ekki verið kynnt yfirmönnum embættisins.
Í samtali við mbl.is vildi Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri ekki láta hafa neitt eftir sér að svo stöddu. Ekki hefur náðst í Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra vegna málsins.