Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, er sagður hafa prentað út klúran texta úr sameiginlegum prentara á lögreglustöðinni sem aðrir starfsmenn hafi séð og varð til þess að upp úr sauð á stöðinni.
Þetta herma heimildir fréttastofu RÚV sem greinir frá. Starfsmannamál hjá lögreglunni á Suðurnesjum eru á borði Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.
Málið tengist kvörtunum undan framgöngu lögreglustjóra annars vegar og hins vegar undan einelti af hálfu tveggja annarra starfsmanna embættisins, meðal annars Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirlögfræðingi embættisins.
Samkvæmt heimildum RÚV átti atvikið með prentarann sér stað í byrjun maí eftir að lögreglustjórinn prentaði út klúran texta í sameiginlegum prentara á stöðinni. Textinn er sagður hafa verið hluti af lengra skjali, en pappírinn í prentaranum hafi klárast áður en hann lauk við að prenta.
Restin af textanum hafi því prentast út þegar næsti starfsmaður setti pappír í prentarann og fljótlega hafi efnistökin verið á vitorði flestra starfsmanna á lögreglustöðinni.
Skömmu síðar hafi trúnaðarmanni borist erindi frá starfsmanni sem taldi efni skjalsins sem lögreglustjórinn prentaði út með öllu óviðeigandi og fann að því að tölvubúnaður embættisins væri notaður til að skrifa og prenta út slíkan texta. Það erindi hafi svo hafnað í dómsmálaráðuneytinu.
Þá segist fréttastofa RÚV hafa heimildir fyrir því að lögreglustjórinn eigi það til að hafa fataskipti fyrir opnum tjöldum á skrifstofu sinni og hafi með því sært blygðunarkennd starfsfólks.
Ólafur Helgi vildi ekki tjá sig um málið við mbl.is en sagðist ekki kannast við það þegar fréttastofa RÚV bar það undir hann.