Lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum fékk stöðuhækkun þrátt fyrir að kvartað hafi verið undan honum vegna kynferðislegrar áreitni. Starfsfólk á lögreglustöðinni hefur kvartað undir ófaglegum ráðningum og stöðuveitingum.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV en þar er vísað í starfsmenn embættisins sem vilja ekki koma fram undir nafni.
Embættið er sagt loga í illdeilum sem snúi annars vegar að Ólafi Helga Kjartanssyni lögreglustjóra og hins vegar Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, yfirmanni á lögfræðisviði, og Helga Kristjánssyni, mannauðsstjóra embættisins.
Lögreglustjóranum er lýst sem afskiptalausum stjórnanda sem taki ekki á vandamálum og eigi það til að tala niður til samstarfskvenna. Þá er hann sagður hafa skipt um föt fyrir opnum dyrum og átt samtal við samtarfskonu ber að ofan á skrifstofu sinni.
Þá var kvartað undan honum til trúnaðarmanns og honum gefið að sök að hafa notað tölvubúnað embættisins til að semja og prenta út klúran texta, sem annar starfsmaður fann svo í prentaranum. Ólafur á að hafa hótað starfsmönnum brottrekstri þegar hann frétti af kvörtununum.
Alda Hrönn og Helgi eru sögð hafa reynt með markvissum hætti að grafa undan Ólafi. Alda er einnig sögð beita starfsfólk hörku og ógnunum og að fólk sem hafi andmælt henni hafi misst vinnuna. Helgi hafi ekki sinnt starfi sínu sem mannauðsstjóri og konur hafi þurft að leita til karlkyns samstarfsmanna til að fá þá til að ræða við gerendur.
Alda Hrönn og Helgi vísa ásökununum á bug en Ólafur Helgi vill ekki tjá sig um málið.