Dómsmálaráðherra er sagður hafa tilkynnt Ólafi Helga Kjartanssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, um flutning hans til embættis lögreglunnar í Vestmannaeyjum.
Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.
Í formlegu bréfi er sagt koma fram að flutningurinn taki gildi núna um mánaðamótin, fallist Ólafur Helgi á tillöguna.
Í samtali við mbl.is sagðist Ólafur Helgi ekkert vilja tjá sig um málið. Ekki hefur náðst í Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.
Í síðustu viku var greint frá því að Áslaug Arna hefði lagt það til við Ólaf að hann viki úr starfi lögreglustjóra.
Ráðherra hefur á borði sínu kvartanir frá starfsmönnum lögreglunnar á Suðurnesjum. Þar er kvartað undan framgöngu Ólafs sem lögreglustjóra og undan einelti af hálfu tveggja annarra starfsmanna hjá embættinu, meðal annars Öldu Hrannar Jóhannsdóttur yfirlögfræðings.