Fordæma aðgerðir Icelandair

Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair hjá ríkissáttasemjara fyrr í sumar.
Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair hjá ríkissáttasemjara fyrr í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norræna flutningamannasambandið, NTF, fordæmir þær aðgerðir sem Icelandair greip til í viðræðum sínum við Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem NTF hefur sent frá sér. 

NTF tekur í svipaðan streng og flug­menn í Evr­ópska flutn­inga­starfs­manna­sam­band­inu sem sendu nýverið frá sér yfirlýsingu vegna málsins. 

Sambandið kveðst sýna því skilning að flugfélög standi frammi fyrir gríðarlega miklum vanda vegna kórónuveirufaraldursins. Þrátt fyrir það sé lausnin á vandanum ekki sú að setja þrýsting á stéttarfélög með hótunum til að veikja þeirra samningsstöðu. 

NTF segir að það hafi verið mikil vonbrigði að heyra það frá FFÍ að Icelandair hefði 17. júlí tilkynnt með skömmum fyrirvara að öllum flugfreyjum félagsins yrði sagt upp og flugmenn myndu ganga í þeirra störf. Icelandair hefði að auki ákveðið að semja við annað stéttarfélag í stað FFÍ. 

„Málið leystist með samkomulagi sem náðist á síðustu stundu, en við viljum koma á framfæri óánægju og áhyggjum af þeirri aðferðafræði sem fyrirtækið notaði,“ segir í yfirlýsingunni, en þar er jafnframt tekið fram að annað flugfélag hafi beitt svipaðri aðferðafræði. Nú mörgum árum seinna, séu sárin enn ekki gróin og menn enn að glíma við afleiðingar þeirra ákvarðana. 

Auk þess að fordæma þá aðferðafræði sem Icelandair viðhafði hvetur NTF félagið til að stuðla að bættu starfsumhverfi og endurbyggja traustið á milli allra aðila. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert