Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur en tapar fylgi frá kosningum samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið.
Flokkarnir fjórir í meirihlutanum mælast samtals með 57,9 prósenta fylgi samanborið við 46,4 prósent í kosningunum vorið 2018. Miðað við niðurstöður könnunarinnar myndi meirihlutinn fá 15 borgarfulltrúa af 23 en hefur í dag 12.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn líkt og í kosningunum og í könnun sem gerð var í október 2018. Flokkurinn mælist nú með 23,4 prósent en fékk 30,8 prósent í kosningunum.
Samfylkingin tapar fylgi og fengi 19,4 prósent en flokkurinn fékk 25,9 prósent í síðustu kosningum. Hinir þrír flokkarnir í meirihlutanum bæta hins vegar allir við sig fylgi, bæði frá kosningunum og síðustu könnun. Píratar mælast nú með 15,9 prósent sem er rúmlega tvöföldun á fylginu í síðustu kosningum. Vinstri græn bæta líka miklu við sig og eru nú með 11,4 prósent en fengu 4,6 prósent í kosningunum.
Viðreisn er með 11,2 prósent í könnuninni en fékk 8,2 prósent í kosningunum. Sósíalistaflokkurinn mælist með 7,1 prósent en fékk 6,4 prósent í kosningunum 2018. Miðflokkurinn er nú með 4,8 prósent en var með 6,1 prósent í kosningunum og Flokkur fólksins mælist með 2,9 prósent miðað við 4,3 prósent í kosningunum. Framsóknarflokkurinn fékk ekki borgarfulltrúa kjörinn í síðustu kosningum og það myndi ekki breytast miðað við niðurstöður könnunarinnar en flokkurinn mælist með 2,6 prósent.
Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndu tapa tveimur borgarfulltrúum samkvæmt könnuninni. Píratar og Vinstri græn myndu hins vegar bæta við sig tveimur fulltrúum hvor flokkur. Viðreisn myndi bæta við sig einum borgarfulltrúa en Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkurinn halda sínum eina fulltrúa. Flokkur fólksins myndi miðað við þessar niðurstöður missa sinn eina fulltrúa.