Alda Hrönn staðið fyrir ýmsum uppákomum

Helgi Magnús Gunnarsson og Alda Hrönn Jóhannsdóttir.
Helgi Magnús Gunnarsson og Alda Hrönn Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Samsett

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir ástæðu til að ætla að ekki séu öll kurl komin til grafar í deilum innan lögreglunnar á Suðurnesjum. Eigi að skera burt meinið þurfi að taka allt æxlið því annars vaxi það áfram.

Þetta segir í færslu sem Helgi birti á Facebook nú í kvöld en tilefni hennar eru þau tíðindi að Ólafur Helgi Kjartansson muni láta af störfum sem lögreglustjóri á Suðurnesjum og þess í stað taka við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu. Ólga hefur verið innan embættisins undanfarið og hafa kvart­an­ir borist dóms­málaráðuneyt­inu frá starfs­mönn­um  kvart­an­ir m.a. vegna einelt­is, ólög­mætra upp­sagna og bóta­skyldu því tengdri.

Í samtali við mbl.is segir Helgi Magnús að með færslunni hafi hann verið að vitna í grein sem birtist á Vísi fyrr í sumar þar sem sagt var að fjórir yfirmenn innan lögreglunnar á Suðurnesjum reyndu að grafa undan Ólafi Helga. Ein þeirra er Alda Hrönn Jóhannsdóttir.

„Þú hefur sennilega fylgst með umfjöllun um Öldu Hrönn í fjölmiðlum, þar ber hæst LÖKE-málið en það eru fleiri svona uppákomur sem hún hefur staðið fyrir. Þannig að það er ekki allt sem hefur verið til fyrirmyndar frá henni á þessu sviði,“ segir Helgi Magnús og bætir við að það sé ekki til þess fallið að stuðla að einingu innan lögreglunnar.

Helgi Magnús segir einungis hafa góða reynslu af samskiptum við Ólaf Helga þau tuttugu ár sem þeir hafi haft samskipti starfsins vegna. „Ég hef aldrei kynnst því að hann sé persóna sem komi illa fram við samverkafólk sitt.“

Spurður hvort reynsla hans af Ólafi Helga gefi tilefni til að efast um þá upplifun sem aðrir kunna að hafa, segir Helgi Magnús svo ekki vera. „Nei, nei. Ég er bara að lýsa minni upplifun en ekki að vefengja upplifun annars fólks enda veit ég ekkert um hana,“ segir Helgi Magnús.

Hann vonast þó til að fari að lægja innan lögreglunnar á Suðurnesjum og að menn eyði kröftum sínum í annað en illdeilur. „Það skiptir máli enda brennur það auðvitað á ákæruvaldinu að starfsemin gangi snuðrulaust fyrir sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert