Mun fyrst og fremst sakna starfsfólksins

Ólafur Helgi Kjartansson.
Ólafur Helgi Kjartansson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir helst erfitt að skilja við starfsfólk embættisins en hann lætur brátt af störfum hjá embættinu og hefur störf hjá dómsmálaráðuneytinu. 

Eins og áður hefur verið fjallað um í fjölmiðlum hafa illdeilur verið innan embættisins undanfarið og kvartanir borist dómsmálaráðuneytinu.

Ólafur Helgi sinnti starfi lögreglustjórans á Suðurnesjum í sex ár. Spurður hvort erfitt sé að skilja við embættið segir Ólafur Helgi:

„Það er fyrst og fremst starfsfólkið sem ég sakna. Þetta góða starfsfólk sem hefur unnið af samviskusemi, alúð og heiðarleika að því að efla embættið.“

Grímur Hergeirsson tekur tímabundið við starfi lögreglustjórans á Suðurnesjum og Mar­grét Krist­ín Páls­dótt­ir mun gegna stöðu aðstoðarlögreglustjóra hjá embættinu. Ólafur Helgi segist bera traust til þeirra sem nú muni stýra embættinu. 

„Ég hef fulla trú á því fólki sem kemur núna inn á næstunni til að stýra embættinu.“

„Fæ tækifæri til þess að gera enn betur“

Flutn­ing­ur Ólafs Helga var í til­kynn­ing­u frá dómsmálaráðuneytinu sagður gefa ráðuneyt­inu og lög­regl­unni færi á að nýta sérþekk­ingu hans og reynslu á sviði landa­mæra­vörslu næstu árin. Um það segir Ólafur Helgi: 

„Ég hef setið í stjórn Frontex núna í sex ár og kynnst því starfi og sinni því ágætlega og fæ tækifæri til þess að gera enn betur. Ég mun gera allt mitt til þess að gera hlutina vel og vandlega og af samviskusemi.“

Í samtali við blaðamann kaus Ólafur Helgi að tjá sig ekki um það hvort nauðsynlegt hafi verið að hann stigi til hliðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert