Vill að veikindaleyfin verði skoðuð

Ólafur Helgi Kjartansson.
Ólafur Helgi Kjartansson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Helgi Kjartansson, fráfarandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, óskaði eftir því að veikindaleyfi Öldu Hrannar Jóhanns­dóttur, yfir­lög­fræðings em­bættisins, og Helga Þ. Kristjáns­sonar, mann­auðs­stjóra em­bættisins, yrðu skoðuð nánar af ráðu­neytinu, í bréfi sem lögmaður Ólafs Helga sendi ráðuneytinu. 

Fréttablaðið greinir frá þessu og hefur bréfið undir höndum. 

Dóms­mála­ráðu­neytinu barst bréfið 14. ágúst síðastliðinn en Reimar Péturs­son lög­maður skrifaði það fyrir hönd Ólafs. Bréfið var sent áður en ráðuneytið tilkynnti að Ólafur Helgi yrði færður til í starfi. Hann tekur við starfi innan dómsmálaráðuneytisins í næsta mánuði. 

Alda og Helgi sögð enn í veikindaleyfi

Alda Hrönn og Helgi fóru í veikinda­leyfi þremur dögum eftir að tveir starfs­menn kvörtuðu til fagráðs ríkis­lög­reglu­stjóra undan ein­elti af þeirra hálfu. Lög­reglu­stjóri upp­götvaði veikinda­leyfi þeirra gegnum sjálf­virkt svar í tölvu­pósti en þau til­kynntu ekki lög­reglu­stjóranum veikindin. Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins eru þau enn í veikinda­leyfi.

„Lög­reglu­stjóra þykir því á­kveðinn ó­líkinda­blær um­lykja þá frá­sögn yfir­mannanna tveggja að ein­mitt þau tvö, sem hafa misst til­trú undir­manna og standa í ill­deilum við lög­reglu­stjóra, skuli hafa sam­tímis tekið ó­til­greinda sótt. Hefur það leitt til þess að hann hefur kallað eftir skoðun trúnaðar­læknis á læknis­vott­orðum þeirra. Sú skoðun hefur leitt í sljós að annað þeirra hefur fengið svo­nefnt „eftir­ávott­orð“ læknis út­gefið sem mun ekki standast reglur. Trúnaðar­læknir hefur því neitað að taka það vott­orð gilt. Hitt mun hafa skilað vott­orði sem trúnaðar­læknir gerir ekki at­huga­semdir við,“ segir í bréfinu sem Fréttablaðið vísar í. 

„Lög­reglu­stjóri telur þó þessa at­burða­rás þarfnast frekari skoðunar. Skal í því sam­hengi nefnt að svo virðist sem þau tvö hafi gefið í skyn við dóms­mála­ráðu­neytið að þau muni læknast af veikindum sínum hverfi lög­reglu­stjóri úr em­bætti. Sé þetta rétt, og ekki síst ef ráðu­neytið kýs að leggja [það] til grund­vallar, stað­festir það að ráðu­neytið deili sýn um­bjóðanda míns á trú­verðug­leika yfir­mannanna tveggja og til­kynningu þeirra um veikindi,“ segir þar enn fremur.

Segir fjarveru Öldu og Helga ekki á sína ábyrgð

Upphaflega stóð til að flytja Ólaf Helga til lögreglunnar í Vestmannaeyjum en í bréfinu mótmælir Ólafur Helgi því. Í gær var tilkynnt að hann myndi taka við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu um næstu mánaðamót. Ólafur mót­mælti því að til­færsla hans til Eyja yrði rétt­lætt með því að tveir yfir­menn við em­bætti hans hefðu undan­farnar vikur ekki sinnt starfi sínu.

„Lög­reglu­stjóra verður með engu móti kennt um fjar­vistir þessar. Hitt er að vísu rétt að ýmis á­lita­mál hafa kviknað af þessu til­efni, en þau varða hátt­semi yfir­mannanna tveggja fremur en lög­reglu­stjóra,“ segir í bréfinu. 

Einungis rætt við yfirstjórnina við skýrslugerð

Jafnframt mótmælti Ólafur Helgi fullyrðingum um að lög­reglan á Suður­nesjum hefði verið óstarf­hæf vegna ill­deilna innan yfir­stjórnar og sendi fundar­gerðir til ráðu­neytisins því til stuðnings.

„[Enginn] af þessum fundum hefur gefið til kynna að vand­ræði hafi hlotist af fjar­veru yfir­lög­fræðings og mann­auðs­stjóra, enda em­bættið þannig skipu­lagt að tíma­bundin fjar­vera ein­stakra starfs­manna truflar lítt starf­semina ef nokkuð,“ segir í bréfinu. 

Ráð­gjafar­fyrir­tækið Attentus var fengið til að taka út em­bættið í sumar og skilaði það skýrslu til dóms­mála­ráð­herra 23. júlí síðastliðinn. Ólafur Helgi segir að á henni séu „stór­kost­legir ann­markar“. Hann segir Attentus enga til­raun gera til að taka af­stöðu til þess hver séu sannan­leg at­vik málsins eða meta af­köst em­bættisins á hlut­lægan mæli­kvarða.

„Þannig kemur fram í skýrslunni að hún byggist al­farið á sam­tölum við nokkra starfs­menn em­bættisins og mati á „upp­lifun þeirra“. Hvað teljist sannað eða ó­sannað er hins vegar al­farið látið liggja milli hluta, líkt og engu varði hvort frá­sagnir starfs­manna séu réttar eða rangar,“ segir í bréfinu.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins var einungis rætt við yfir­stjórn lög­reglunnar á Suður­nesjum við gerð skýrslunnar, þ.á m. Öldu Hrönn og Helga. Starfs­menn sem Frétta­blaðið hefur verið í sam­skiptum við hafa margir hverjir verið ó­sáttir við að hafa ekki fengið að segja sína hlið í skýrslunni.

Frétt Fréttablaðsins í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert