Ólafur Helgi Kjartansson, fráfarandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, óskaði eftir því að veikindaleyfi Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirlögfræðings embættisins, og Helga Þ. Kristjánssonar, mannauðsstjóra embættisins, yrðu skoðuð nánar af ráðuneytinu, í bréfi sem lögmaður Ólafs Helga sendi ráðuneytinu.
Fréttablaðið greinir frá þessu og hefur bréfið undir höndum.
Dómsmálaráðuneytinu barst bréfið 14. ágúst síðastliðinn en Reimar Pétursson lögmaður skrifaði það fyrir hönd Ólafs. Bréfið var sent áður en ráðuneytið tilkynnti að Ólafur Helgi yrði færður til í starfi. Hann tekur við starfi innan dómsmálaráðuneytisins í næsta mánuði.
Alda Hrönn og Helgi fóru í veikindaleyfi þremur dögum eftir að tveir starfsmenn kvörtuðu til fagráðs ríkislögreglustjóra undan einelti af þeirra hálfu. Lögreglustjóri uppgötvaði veikindaleyfi þeirra gegnum sjálfvirkt svar í tölvupósti en þau tilkynntu ekki lögreglustjóranum veikindin. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru þau enn í veikindaleyfi.
„Lögreglustjóra þykir því ákveðinn ólíkindablær umlykja þá frásögn yfirmannanna tveggja að einmitt þau tvö, sem hafa misst tiltrú undirmanna og standa í illdeilum við lögreglustjóra, skuli hafa samtímis tekið ótilgreinda sótt. Hefur það leitt til þess að hann hefur kallað eftir skoðun trúnaðarlæknis á læknisvottorðum þeirra. Sú skoðun hefur leitt í sljós að annað þeirra hefur fengið svonefnt „eftirávottorð“ læknis útgefið sem mun ekki standast reglur. Trúnaðarlæknir hefur því neitað að taka það vottorð gilt. Hitt mun hafa skilað vottorði sem trúnaðarlæknir gerir ekki athugasemdir við,“ segir í bréfinu sem Fréttablaðið vísar í.
„Lögreglustjóri telur þó þessa atburðarás þarfnast frekari skoðunar. Skal í því samhengi nefnt að svo virðist sem þau tvö hafi gefið í skyn við dómsmálaráðuneytið að þau muni læknast af veikindum sínum hverfi lögreglustjóri úr embætti. Sé þetta rétt, og ekki síst ef ráðuneytið kýs að leggja [það] til grundvallar, staðfestir það að ráðuneytið deili sýn umbjóðanda míns á trúverðugleika yfirmannanna tveggja og tilkynningu þeirra um veikindi,“ segir þar enn fremur.
Upphaflega stóð til að flytja Ólaf Helga til lögreglunnar í Vestmannaeyjum en í bréfinu mótmælir Ólafur Helgi því. Í gær var tilkynnt að hann myndi taka við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu um næstu mánaðamót. Ólafur mótmælti því að tilfærsla hans til Eyja yrði réttlætt með því að tveir yfirmenn við embætti hans hefðu undanfarnar vikur ekki sinnt starfi sínu.
„Lögreglustjóra verður með engu móti kennt um fjarvistir þessar. Hitt er að vísu rétt að ýmis álitamál hafa kviknað af þessu tilefni, en þau varða háttsemi yfirmannanna tveggja fremur en lögreglustjóra,“ segir í bréfinu.
Jafnframt mótmælti Ólafur Helgi fullyrðingum um að lögreglan á Suðurnesjum hefði verið óstarfhæf vegna illdeilna innan yfirstjórnar og sendi fundargerðir til ráðuneytisins því til stuðnings.
„[Enginn] af þessum fundum hefur gefið til kynna að vandræði hafi hlotist af fjarveru yfirlögfræðings og mannauðsstjóra, enda embættið þannig skipulagt að tímabundin fjarvera einstakra starfsmanna truflar lítt starfsemina ef nokkuð,“ segir í bréfinu.
Ráðgjafarfyrirtækið Attentus var fengið til að taka út embættið í sumar og skilaði það skýrslu til dómsmálaráðherra 23. júlí síðastliðinn. Ólafur Helgi segir að á henni séu „stórkostlegir annmarkar“. Hann segir Attentus enga tilraun gera til að taka afstöðu til þess hver séu sannanleg atvik málsins eða meta afköst embættisins á hlutlægan mælikvarða.
„Þannig kemur fram í skýrslunni að hún byggist alfarið á samtölum við nokkra starfsmenn embættisins og mati á „upplifun þeirra“. Hvað teljist sannað eða ósannað er hins vegar alfarið látið liggja milli hluta, líkt og engu varði hvort frásagnir starfsmanna séu réttar eða rangar,“ segir í bréfinu.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var einungis rætt við yfirstjórn lögreglunnar á Suðurnesjum við gerð skýrslunnar, þ.á m. Öldu Hrönn og Helga. Starfsmenn sem Fréttablaðið hefur verið í samskiptum við hafa margir hverjir verið ósáttir við að hafa ekki fengið að segja sína hlið í skýrslunni.