„Það eru nú sjaldnast ef nokkurn tímann læti í kringum mig – og ekki var það í dag,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, fráfarandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is spurður um fréttir þess efnis að vísa ætti honum út af lögreglustöðinni með valdi í dag.
Tilkynnt var í vikunni að Ólafur myndi hætta sem lögreglustjóri um næstu mánaðamót og taka við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu. Ólga hefur verið innan lögregluembættisins á Suðurnesjum undanfarið sem hafa ratað í fjölmiðla og inn á borð dómsmálaráðherra.
DV greindi frá því í dag að Ólafur Helgi hefði freistað þess í dag að fá aðgang að mannauðsgögnum embættisins en hafi verið meinaður aðgangur að þeim. Hann hafi þá reynt að fá skjalaskáp sem inniheldur gögnin opnaðan með aðstoð lásasmiðs.
Ráðuneytisstjóri hefði í kjölfarið lagt af stað til Reykjanesbæjar í fylgd með Grími Hergeirssyni, sem tekur tímabundið við starfi lögreglustjóra, og vísa hefði átt Ólafi Helga út með valdi.
„Það var algjörlega úr lausu lofti gripið,“ segir Ólafur Helgi um þann fréttaflutning. Hann er kominn í sumarleyfi frá og með næsta mánudegi og verður í leyfi að minnsta kosti til mánaðamóta þannig að hann mun ekki snúa aftur sem lögreglustjóri.
„Eftir 29 ár í starfi sem sýslumaður og lögreglustjóri þá er það náttúrulega söknuður. Sérstaklega verður mér hugsað til þess ágæta samstarfsfólks sem hefur unnið vel með mér, verið heiðarlegt og unnið af samviskusemi og alúð,“ segir Ólafur Helgi um tímamótin.