Með ólæknandi krabbamein eftir mistök

Íslensk kona ætlar í skaðabótamál við Krabbameinsfélagið vegna mistaka við …
Íslensk kona ætlar í skaðabótamál við Krabbameinsfélagið vegna mistaka við greiningu á sýni. Mynd/Krabbameinsfélagið

Íslensk kona ætlar í skaðabótamál við Krabbameinsfélagið eftir að í ljós kom að mistök voru gerð við greiningu sýnis úr henni þegar hún kom í skoðun vegna krabbameins. Mistökin gerðu það að verkum að frumubreyting sem orðið hafði greindist ekki, þannig að krabbameinið gat breitt úr sér áfram óséð.

Nú er konan með ólæknandi krabbamein, sem talið er að hefði getað verið hægt að koma í veg fyrir ef frumubreytingin hefði verið greind í tæka tíð, þ.e. þegar hún fór í reglubundna leghálsskoðun árið 2018. Sagt var frá þessu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það sem hefur gerst er hreinlega það að það hafa yfirsést frumubreytingar sem voru til staðar. Við sjáum það þegar við endurskoðum sýnið,“ sagði Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir og sviðsstjóri leitarsviðs hjá Krabbameinsfélaginu, í viðtali í fréttatímanum. Hann sagði alla harmi slegna hjá Krabbameinsfélaginu.

Hann sagði jafnframt að hingað til hafi komið upp tilfelli á tveggja til þriggja ára fresti þar sem frumubreytingar sleppa í gegnum nálaraugað, en að það hafi ekki verið eins alvarleg tilfelli og það sem ræðir um hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert