Að eiga mömmu og pabba með krabba

Valdimar Högni Róbertsson hlaðvarpsstjóri og Karítas Mörtudóttir Bjarkadóttir ritstjóri Krakkarúv …
Valdimar Högni Róbertsson hlaðvarpsstjóri og Karítas Mörtudóttir Bjarkadóttir ritstjóri Krakkarúv taka við Samfélagsviðurkenningu Krabbameinsfélagsins. Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Samfélagsviðurkenning Krabbameinsfélagsins var veitt í annað sinn á aðalfundi félagsins í maí, en viðurkenninguna hlutu hinn átta ára gamli Valdimar Högni Róbertsson og RÚV fyrir einstakt framlag sitt til fræðslu um krabbamein. Viðurkenningin er veitt aðilum sem félaginu þykir hafa lagt málstaðnum lið með eftirtektarverðum hætti. 

Átta ára hlaðvarpsstjóri

Faðir Valdimars Högna greindist með krabbamein þegar hann var átta ára gamall. Krabbameinsgreiningin var mikið áfall fyrir Valdimar, en hjá honum vöknuðu hjá honum margar spurningar. Þá brá hann á að ráð að afla sér svara með því að gera útvarpsþátt fyrir börn sem eiga foreldri með krabbamein.

Úr varð sex þátta sería sem ber heitið Að eiga mömmu og pabba með krabba, en serían er aðgengileg á vef RÚV. Við gerð þáttarins aflaði Valdimar sér þekkingar um sjúkdóminn og áhrif hans á aðstandendur ásamt því að fræða aðra unga aðstandendur fólks með krabbamein með því að taka viðtöl við sérfræðinga. 

Verkefnið einstakt á heimsvísu 

„Verkefnið er örugglega einstakt, ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu og mjög upplýsandi fyrir bæði börn og fullorðna,“ segir í fréttatilkynningu Krabbameinsfélagsins um útvarpsþætti Valdimars sem vakið hafa verðskuldaða athygli.

Þættirnir voru unnir í samstarfi við RÚV sem á mikið hrós skilið fyrir þátttöku sína í verkefninu að samkvæmt Krabbameinsfélagsinu. Karítas Mörtudóttir Bjarkadóttir, ritstjóri Krakkarúv var viðstödd verðlaunaafhendinguna og tók við viðurkenningunni fyrir hönd RÚV.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert