„Við erum að setja alla krafta okkar í að komast til botns í þessu máli. Þarna urðu alvarleg mistök sem við erum að bregðast við eftir bestu getu og við munum gera það sem þarf.“
Þetta er haft eftir Ágústi Inga Ágústssyni, yfirlækni leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, í nýrri tilkynningu á vef félagsins.
Er þar ítrekað að verið sé að flýta skoðun þeirra 6.000 sýna í úrtakinu sem um ræðir, en greint var frá því á mbl.is fyrr í kvöld.
Endurskoðun hafi hingað til leitt í ljós að í 2% tilfella hafi reynst vera ástæða til að kalla konur inn til frekari skoðunar. Bætt hafi verið tímabundið í starfsmannahópinn til að flýta enn frekar vinnu við endurskoðun sýnanna.
Tvær konur til viðbótar hafa haft samband við lögmann þar sem þær telja að sams konar mistök hafi einnig átt sér stað við vinnslu sýna þeirra.
„Félagið hefur óskað eftir frekari upplýsingum um þetta frá lögmanni kvennanna,“ segir í tilkynningu félagsins.
Enn fremur verði Ágúst í viðtali í þættinum Kastljósi í Ríkissjónvarpinu annað kvöld, þar sem hann muni fara ítarlegar yfir málið.
„Fjöldi kvenna hefur haft samband við Krabbameinsfélagið síðustu daga. Málið hefur skiljanlega vakið upp ótta meðal margra kvenna um hvort mistök kunni að hafa átt sér stað við greiningu í þeirra tilviki.
Ekki er talin ástæða til að allar konur sem komið hafa í skimun að undanförnu þurfi að óttast slíkt. Þær konur sem þarf að skoða aftur eru kallaðar jafn óðum í frekari skoðun sé minnsti grunur um frumubreytingar. Ekki hefur komið upp grunur um jafn alvarlegt tilvik og það sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.
Krabbameinsfélagið harmar þetta hörmulega mál sem nú er til rannsóknar hjá Embætti landlæknis og þær alvarlegu afleiðingar sem það hefur þegar haft.“