Grunur um mistök í málum tveggja annarra

„Það eru fleiri einstaklingar sem hafa komið fram og leitað …
„Það eru fleiri einstaklingar sem hafa komið fram og leitað til mín og þau mál eru á frumstigi,“ segir Sævar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sævar Þór Jónsson, lögmaður konu sem fékk ranga niðurstöðu úr leghálssýnatöku árið 2018 og greindist með ólæknandi krabbamein í vor, segir að grunur sé um álíka mistök í málum tveggja einstaklinga sem hafa leitað til hans. 

Stöð 2 greindi fyrst frá máli konunnar, sem er um fimmtugt, á sunnudag. Í kjölfarið hefur verið greint frá því að hið minnsta þrjátíu konur sem fóru í leghálsskoðun hjá Krabbameinsfélaginu árið 2018 fengu rangar niðurstöður um frumubreytingar. Málið er til rannsóknar hjá embætti landlæknis. 

Sævar segir í samtali við mbl.is að fleiri einstaklingar hafi síðustu daga leitað til hans. 

„Það eru fleiri einstaklingar sem hafa komið fram og leitað til mín og þau mál eru á frumstigi. Það þarf að kanna hvort þau mál séu af sama meiði og það mál sem þetta byrjaði allt saman vegna. Það lítur út fyrir að þetta sé ekki einsdæmi,“ segir Sævar. 

Hann segir að Krabbameinsfélagið hafi viðurkennt mistök í máli konunnar, en ekki sé víst hvort þau mál sem hafa komið á hans borð í kjölfarið séu eins. 

Málið er til rannsóknar hjá embætti landlæknis.
Málið er til rannsóknar hjá embætti landlæknis. Mynd/Krabbameinsfélagið

„Þegar maður er að eiga við krabbamein er ekki hægt að segja að öll tilfelli séu eins. Í máli þessarar konu er það alveg staðfest að það hafa verið gerð mistök og það hefur Krabbameinsfélagið viðurkennt. Það er ekki búið að taka afstöðu til hinna málanna sem hafa komið inn á borð til mín og þau eru það flókin að það þarf sérfræðinga til að dæma um það. En það er grunur um það,“ segir Sævar. 

Lítur út fyrir að málin séu fleiri 

Sævar segir að útlit sé fyrir að málin séu fleiri en þau þrjú sem hann hefur nú fengið á sitt borð. 

„Þetta eru tveir einstaklingar til viðbótar við konuna sem vilja láta kanna sín mál. En það lítur út fyrir að þetta séu fleiri mál, það eru einstaklingar að hringja út af aðstandendum sem eru látnir og annað, en til viðbótar eru þetta tvö mál sem eru formlega komin á mitt borð. Krabbameinsfélagið hefur viðurkennt mistök í þessu eina máli en þau eru fleiri til skoðunar.“

Sævar segir að mál konunnar, sem greint var frá á sunnudag, sé enn á frumstigi líkt og hin tvö. 

„Við erum að fylgja eftir kvörtun hjá landlækni og erum síðan í viðræðum við aðila um bætur. Þetta er á algjöru frumstigi. Það getur verið að við náum sáttum og það getur verið að við þurfum að fara með málið lengra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert