Krabbameinsfélagið harmar það hörmulega mál sem nú er til rannsóknar hjá embætti landlæknis og þær alvarlegu afleiðingar sem það hefur þegar haft.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu, en vísað er til rannsóknar sem hafin er eftir að upp komst um mistök í starfi félagsins sem leiddu til þess að hið minnsta þrjátíu konur fengu rangar niðurstöður um frumubreytingar.
Félagið segist nú vinna eftir viðbragðsáætlun, meðal annars með því að flýta skoðun þeirra 6.000 sýna sem ákveðið hefur verið að athuga nánar og kalla inn konur sem þörf sé á að skoða að nýju.
„Verið er að kalla inn aukastarfsfólk til að flýta enn frekar vinnu við endurskoðun sýnanna,“ segir í yfirlýsingunni.
Fjöldi kvenna hafi haft samband við leitarstöð Krabbameinsfélagsins síðustu daga.
„Skiljanlega hefur málið vakið ótta meðal margra um hvort mistök kunni að hafa átt sér stað við greiningu í þeirra tilviki. Ekki er ástæða til að allar konur sem komið hafi í skimun að undanförnu þurfi að óttast slíkt. Þær konur sem þarf að skoða aftur eru kallaðar jafn óðum í frekari skoðun sé minnsti grunur um frumubreytingar og þeirra rannsóknir fá flýtimeðferð.
Ekki hafa komið í ljós nein önnur alvarleg tilvik. Þó hefur í 30 tilfellum hingað til verið talin ástæða til nýrrar skoðunar viðkomandi kvenna, svo fyllstu varúðar sé gætt.
Krabbameinsfélagið harmar þetta hörmulega mál sem nú er til rannsóknar hjá Embætti landlæknis og þær alvarlegu afleiðingar sem það hefur þegar haft.“