Rannsaka alvarlegt og óvænt atvik

Embætti landlæknis rannsakar málið.
Embætti landlæknis rannsakar málið. Mynd/Krabbameinsfélagið

Embætti landlæknis rannsakar nú mistök hjá starfsmanni Krabbameinsfélags Íslands sem upp komust í sumar þegar fimmtug kona greindist með ólæknandi krabbamein sem líklega hefði verið hægt að koma í veg fyrir hefði hún ekki fengið ranga niðurstöðu úr leghálssýnatöku árið 2018, en Stöð 2 greindi fyrst frá málinu. 

Sjö sentimetra æxli fannst í leggöngum konunnar í júní. Sýni sem tekið var árið 2018 var þá endurskoðað og í því sáust greinilegar frumubreytingar. 

Þá hefur verið greint frá því að hið minnsta þrjátíu konur sem fóru í leghálsskoðun hjá Krabbameinsfélaginu árið 2018 fengu rangar niðurstöður um frumubreytingar. 

Gæðaeftirlit Krabbameinsfélagsins hefur síðan ákveðið að endurskoða fimm til sex þúsund sýni sem tekin voru síðustu þrjú ár, en þegar er búið að skoða helming sýnanna. 

Í svari embættis landlæknis við fyrirspurn mbl.is vegna málsins segir að atvikið sé nú til rannsóknar og embættið tjái sig ekki um einstök atriði málsins á meðan rannsókn stendur yfir. Krabbameinsfélagið hafi tilkynnt landlækni umrætt alvarlegt óvænt atvik í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu.

„Vegna alvarleika málsins hélt landlæknir fund með fulltrúum frá Krabbameinsfélagi Íslands til að ganga úr skugga um að gripið hefði verið til allra viðeigandi ráðstafana, meðal annars að farið yrði yfir hvort mögulegt gæti verið að fleiri sýni hefðu verið ranglega greind. Einnig að gripið hefði verið til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir eftir því sem kostur er að svona mistök geti orðið aftur. Ennfremur til að tryggja að starfsfólk KÍ væri í sambandi við og hefði upplýst þann skjólstæðing sem varð fyrir þessu hörmulega atviki,“ segir í svari embættisins. 

„Tilkynningar um alvarlegt óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu fara í sérstakan farveg hjá EL og atvikin eru rannsökuð með það fyrir augum að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að slík atvik eigi sér ekki aftur stað,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert