Sjö fyrirspurnir hafa borist Sævari Þór Jónssyni, lögmanni konu sem hyggst sækja skaðabætur vegna rangrar greiningar Krabbameinsfélagsins, sem lúta að sambærilegum málum. Í tveimur málanna er um að ræða fyrirspurnir frá aðstandendum kvenna sem létust úr krabbameini.
RÚV greindi fyrst frá en Sævar staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
„Það er bara verið að vinna úr málunum og sjá hvort þetta séu sambærileg mál. Það fæst ekki staðfest nema með öflun gagna,“ segir Sævar sem telur að Krabbameinsfélagið sé sannarlega bótaskylt í máli konunnar sem hyggst sækja skaðabótamál. Krabbameinsfélagið hefur viðurkennt mistök í hennar tilviki.
Um er að ræða fyrirspurnir vegna nokkurra kvenna sem fóru í sýnatöku hjá Krabbameinsfélaginu árið 2018 og greindust ekki með leghálskrabbamein en greindust síðar með krabbamein. Í einhverjum tilvikum snerta fyrirspurnirnar þó sýnatökur sem gerðar voru fyrir árið 2018.
Sævar segir að það sé í sjálfu sér ekki flókið að staðfesta að grunur þeirra sem að fyrirspurnunum standa sé á rökum reistur.
„Krabbameinsfélagið hefur óskað eftir samvinnu um þetta og þeir ættu að vera tiltölulega fljótir að greina það og við erum bara að vinna í því að taka þau gögn saman. Í framhaldinu munum við senda það áfram sem við teljum að sé svipað og þetta fyrsta mál sem kom upp.“
Spurður hvort Krabbameinsfélagið hafi verið samvinnuþýtt fram til þessa segir Sævar:
„Krabbameinsfélagið hefur óskað eftir samvinnu. Það hefur svo sem ekki látið reyna á hana en við erum bara mjög ánægðir með það þangað til annað kemur í ljós.“
Ekkert liggur fyrir um það hversu háar skaðabætur í málunum gætu orðið en Sævar segir að skaðabótaskylda liggi fyrir í fyrsta málinu.
„Það er algjörlega á frumstigi eins og staðan er í dag. Við getum ekkert tjáð okkur um það. Við erum að hefja einhvers konar samningaviðræður við Krabbameinsfélagið. Við sjáum bara hvernig því vindur fram. Í þessu upphaflega máli, fyrsta málinu sem kom, þá eru þeir náttúrulega búnir að viðurkenna mistök svo það liggur fyrir að það er bótaskylda þar.“