Kristján Oddsson, fyrrverandi yfirlæknir hjá Krabbameinsfélaginu, segir félagið fórna heilsufarslegum hagsmunum kvenna fyrir fjárhagslega og ímyndarlega hagsmuni. Hann segir löngu ljóst að fyrirkomulag leitarskimunar fyrir leghálskrabbameini gangi ekki upp.
„Þetta hefði ekki þurft að fara svona fyrir félagið ef það hefði hlustað fyrir þremur til fimm árum. Virkilega því miður,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.
Kristján starfaði sem yfirlæknir og sviðsstjóri leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins frá 2013 til 2017. Hann segist hafa varað við þeirri atburðarás sem fór af stað í vor þegar kona á fimmtugsaldri greindist með ólæknandi krabbamein sem líklega hefði verið hægt að koma í veg fyrir hefði hún fengið réttar niðurstöður úr leghálsskoðun árið 2018.
Kristján sendi stjórn félagsins minnisblað þegar hann starfaði þar sem yfirlæknir þar sem hann varaði við því að endurskoða þyrfti fyrirkomulag leitarskimunar.
„Þátttakan hefur farið niður síðustu 30 árin, úr einhverjum rúmum 80% og niður fyrir öll viðmiðunarmörk. Nýgengi krabbameins hefur haldist óbreytt síðustu þrjátíu ár og núna á kannski síðustu 10 árum hefur dánartíðni hækkað verulega. Þetta er þessi harða tölfræði sem segir okkur að það er ekki hægt að halda áfram með óbreytta skipun mála. Þessu var Krabbameinsfélagið algjörlega ósammála og þau bara ráku mig í staðinn fyrir að lagfæra hlutina,“ segir Kristján.
„Þessi sérhagsmunasamtök eru með puttana í leitarstarfinu án þess að hafa nokkra faglega þekkingu þar á. Þá leit ég á það sem skyldu mína sem faglegur stjórnandi yfir leitinni að gefa mínum yfirboðurum skilaboð um að þetta gengi ekki. Og mér var bara hent út.“
Kristján leiðir nú samstarfsverkefni heilbrigðisráðuneytisins, landlæknis og heilsugæslunnar sem snýr að því að færa skimun á leghálskrabbameini til heilsugæslunnar. Hann segir ljóst að hagsmunir Krabbameinsfélagsins stangist á.
„Þeir fjárhagslegu og ímyndarlegu hagsmunir sem félagið hefur stangast á. Ég segi ímyndarlegu af því að fólki hefur verið talin trú um að þeir styrkir sem félagið fær fari í leitarstarfið en það hefur ekki verið í að minnsta kosti áratug. Heilsufarslegum hagsmunum kvenna hefur verið fórnað fyrir þetta, sem er mjög sorglegt fyrir félag sem gefur sig út fyrir það að berjast gegn krabbameini,“ segir Kristján.
„Heilbrigðisyfirvöld hafa trúað mér, þó að Krabbameinsfélagið hafi kosið að gera það ekki, og núverandi ráðherra hefur komið skipan á þessi mál sem er sambærileg því sem gerist í öðrum löndum. Þetta er samstarfsverkefni landlæknis, heilsugæslunnar og Landspítala og svo eru til hliðar bæði fagráð og skimunarráð sem geta veitt ráðleggingar, í staðinn fyrir að þetta sé í höndum einhverra sérhagsmunasamtaka,“ segir Kristján.
Kristján segir mikilvægt að fyrirkomulag skimunar sé eins gott og það geti orðið.
„Okkar verkefni er núna fyrst og fremst að endurheimta traust á leitinni. Þetta þarf að vera eins gott og það getur orðið og það er algjört skilyrði að konur beri traust til leitarinnar ef hún á að skila árangri.“
Hvað varðar Krabbameinsfélagið segir Kristján að endurskoða verði þau sýni sem tekin hafa verið á síðustu þremur árum.
„Það verður að láta endurskoða þessi sýni þrjú ár aftur í tímann af óháðum endurskoðunaraðila og síðan verða þeir sem stýra þessu félagi, stjórn og framkvæmdastjóri, að fara frá. Það er að mínu mati það eina sem er í stöðunni fyrir þá sem vilja félaginu eitthvað gott því málstaðurinn á að sjálfsögðu rétt á sér,“ segir Kristján.
Þá segist Kristján ósáttur við þá afstöðu Krabbameinsfélagsins að kenna starfsmanni félagsins um þau mistök sem urðu.
„Framkvæmdastjóri og stjórnin bera ábyrgð á starfseminni og ég tel það hreint út sagt ljótt að skella allri ábyrgðinni á einn starfsmann. Það gera allir mistök og það er mannlegur harmleikur fyrir bæði þann sem fær sýnið sitt ranglega greint og þann starfsmann sem gerir mistökin. En hvernig Krabbameinsfélagið hefur brugðist við þessu, með því að firra sig ábyrgð og skella skuldinni á einn starfsmann og ýja svo að því að hann sé andlega veikur – ég þarf ekki einu sinni að hafa orð um það,“ segir Kristján.
Hann segir mikilvægt að fólk átti sig á muninum á mannlegum mistökum og gölluðu kerfi.
„Menn þurfa að skilja á milli mannlegra mistaka og þess kerfis sem sér um þessa skimun. Skimun og árangur af henni byggist fyrst og fremst á því að konur taki þátt í henni og þátttaka hefur verið langt undir viðmiðum. Þá er alveg ljóst að það er ekki hægt að halda áfram með óbreytt skipulag. Félag sem gefur sig út fyrir að vera að berjast gegn krabbameini og berst svo með kjafti og klóm við að halda óbreyttu skipulagi – þar liggur vandamálið, í þessum tvískinnungi og í rauninni í þessari blekkingu,“ segir Kristján.