„Ef Krabbameinsfélagið telur ekki rétt að halda starfseminni áfram þá reikna ég með að þau tilkynni yfirvöldum það,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Krabbameinsfélagið birti í dag erindi sem það sendi Maríu þar sem afhendingar gagna er óskað. Í erindinu segir að ef þau gögn staðfesti ummæli fulltrúa SÍ verði starfsemi leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins lokað „umsvifalaust“.
María segir að fundur með Krabbameinsfélaginu hafi ekki verið ákveðinn. Eins og mbl.is greindi frá í gær óskaði Krabbameinsfélagið eftir neyðarfundi með SÍ vegna ummæla sem Tryggvi Björn Stefánsson læknir og fulltrúi SÍ í vinnu við endurskoðun kröfulýsinga lét falla í Kastljósi 3. september sl. Krabbameinsfélagið segir fullyrðingarnar alvarlegar en þær lutu að gæðaeftirliti og gæðaskráningu í leitarstarfi félagsins.
María segir að erindinu verði að sjálfsögðu svarað en Sjúkratryggingar Íslands muni ekki tjá sig að öðru leyti á þessu stigi málsins.
Tryggvi kom að verkefninu sem aðkeyptur sérfræðingur en starfar ekki hjá SÍ og er ekki talsmaður stofnunarinnar, að sögn Maríu. Spurð hvort SÍ beri þá ekki ábyrgð á ummælum hans segir María:
„Það sem liggur fyrir núna er að rannsaka málið til hlítar, það er aðalatriðið.“
Embætti landlæknis rannsakar nú mistök hjá starfsmanni Krabbameinsfélags Íslands sem upp komust í sumar þegar fimmtug kona greindist með ólæknandi krabbamein sem líklega hefði verið hægt að koma í veg fyrir hefði hún ekki fengið ranga niðurstöðu úr leghálssýnatöku árið 2018.
SÍ koma að þeirri rannsókn í samstarfi við Embætti landlæknis.