Ef gögn staðfesta ummælin verði leitarstöð lokað

Krabba­meins­fé­lagið birti í dag er­indi sem það sendi Maríu Heim­is­dótt­ur, for­stjóra Sjúkra­trygg­inga Íslands (SÍ), þar sem af­hend­ing­ar gagna er óskað. Í er­ind­inu seg­ir að ef þau gögn staðfesti um­mæli full­trúa SÍ verði starf­semi leit­ar­stöðvar Krabba­meins­fé­lags­ins lokað „um­svifa­laust“.

Eins og mbl.is greindi frá í gær höfnuðu SÍ beiðni Krabba­meins­fé­lags­ins um neyðar­fund í gær.

Í er­ind­inu kem­ur fram að starfs­menn Krabba­meins­fé­lags­ins telji sig ekki geta sinnt störf­um sín­um á meðan órök­studd­um full­yrðing­um full­trúa SÍ hafi ekki verið svarað af hálfu SÍ sem fékk hann til að vinna að gerð kröf­u­lýs­inga vegna krabba­meins­leit­ar­inn­ar á ár­inu 2017. 

Full­yrðing­arn­ar sem um ræðir voru sett­ar fram af Tryggva Birni Stef­áns­syni lækni og full­trúa SÍ í vinnu við end­ur­skoðun kröf­u­lýs­inga í Kast­ljósi 3. sept­em­ber sl. Krabba­meins­fé­lagið seg­ir full­yrðing­arn­ar al­var­leg­ar en þær lutu að gæðaeft­ir­liti og gæðaskrán­ingu í leit­ar­starfi fé­lags­ins. 

Starf­semi leit­ar­stöðvar­inn­ar í upp­námi

Í kjöl­far þess að Tryggvi setti full­yrðing­arn­ar fram hef­ur starf­semi leit­ar­stöðvar­inn­ar verið í upp­námi, seg­ir í er­ind­inu. 

Eins og fram hef­ur komið var hvorki starfs­fólki Krabba­meins­fé­lags­ins né Leit­ar­stöðvar­inn­ar kunn­ugt um að efa­semd­ir væru af hálfu Sjúkra­trygg­inga eða ráðuneyt­is­ins um getu fé­lags­ins til að sinna þeim verk­efn­um sem því voru fal­in með þjón­ustu­samn­ingn­um,“ seg­ir í er­ind­inu en þar er beiðni fé­lags­ins frá því í fyrra­dag og í gær um að SÍ af­hendi gögn­in sem um­mæl­in byggj­ast á.

„Í ljósi al­var­leika máls­ins er það krafa fé­lags­ins að af­hend­ing gagn­anna fari fram eigi síðar en á há­degi mánu­dag­inn 7. sept­em­ber. Leggi Sjúkra­trygg­ing­ar fram gögn sem staðfesta um­mæl­in, er það mat fé­lags­ins, að ekki verði hjá því kom­ist að loka starf­semi Leit­ar­stöðvar­inn­ar um­svifa­laust.“

Ef SÍ geta ekki af­hent gögn­in á til­sett­um tíma líti Krabba­meins­fé­lagið svo á að þau séu ekki til og að um­mæli full­trúa SÍ séu „staðlaus­ir staf­ir“.

Að mati fé­lags­ins hef­ur það þá þýðingu að starf­semi Leit­ar­stöðvar­inn­ar hafi farið fram í sam­ræmi við skyld­ur sam­kvæmt þjón­ustu­samn­ingi aðila og að eng­ar for­send­ur séu til að draga í efa hæfni fé­lags­ins og starfs­manna Leit­ar­stöðvar­inn­ar til að sinna þeim skimun­ar­verk­efn­um sem því ber að ann­ast“, seg­ir í er­ind­inu til Maríu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka