Ef gögn staðfesta ummælin verði leitarstöð lokað

Krabbameinsfélagið birti í dag erindi sem það sendi Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), þar sem afhendingar gagna er óskað. Í erindinu segir að ef þau gögn staðfesti ummæli fulltrúa SÍ verði starfsemi leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins lokað „umsvifalaust“.

Eins og mbl.is greindi frá í gær höfnuðu SÍ beiðni Krabbameinsfélagsins um neyðarfund í gær.

Í erindinu kemur fram að starfsmenn Krabbameinsfélagsins telji sig ekki geta sinnt störfum sínum á meðan órökstuddum fullyrðingum fulltrúa SÍ hafi ekki verið svarað af hálfu SÍ sem fékk hann til að vinna að gerð kröfulýsinga vegna krabbameinsleitarinnar á árinu 2017. 

Fullyrðingarnar sem um ræðir voru settar fram af Tryggva Birni Stefánssyni lækni og fulltrúa SÍ í vinnu við endurskoðun kröfulýsinga í Kastljósi 3. september sl. Krabbameinsfélagið segir fullyrðingarnar alvarlegar en þær lutu að gæðaeftirliti og gæðaskráningu í leitarstarfi félagsins. 

Starfsemi leitarstöðvarinnar í uppnámi

Í kjölfar þess að Tryggvi setti fullyrðingarnar fram hefur starfsemi leitarstöðvarinnar verið í uppnámi, segir í erindinu. 

Eins og fram hefur komið var hvorki starfsfólki Krabbameinsfélagsins né Leitarstöðvarinnar kunnugt um að efasemdir væru af hálfu Sjúkratrygginga eða ráðuneytisins um getu félagsins til að sinna þeim verkefnum sem því voru falin með þjónustusamningnum,“ segir í erindinu en þar er beiðni félagsins frá því í fyrradag og í gær um að SÍ afhendi gögnin sem ummælin byggjast á.

„Í ljósi alvarleika málsins er það krafa félagsins að afhending gagnanna fari fram eigi síðar en á hádegi mánudaginn 7. september. Leggi Sjúkratryggingar fram gögn sem staðfesta ummælin, er það mat félagsins, að ekki verði hjá því komist að loka starfsemi Leitarstöðvarinnar umsvifalaust.“

Ef SÍ geta ekki afhent gögnin á tilsettum tíma líti Krabbameinsfélagið svo á að þau séu ekki til og að ummæli fulltrúa SÍ séu „staðlausir stafir“.

Að mati félagsins hefur það þá þýðingu að starfsemi Leitarstöðvarinnar hafi farið fram í samræmi við skyldur samkvæmt þjónustusamningi aðila og að engar forsendur séu til að draga í efa hæfni félagsins og starfsmanna Leitarstöðvarinnar til að sinna þeim skimunarverkefnum sem því ber að annast“, segir í erindinu til Maríu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert