Krabbameinsfélagið ítrekar að fullyrðingar um að starfsmaður, sem greindi ranglega sýni úr leghálsstroku hjá konu sem greindist nýverið með ólæknandi krabbamein, ætti við andleg veikindi að stríða komi ekki frá félaginu.
Í frétt á vef Fréttablaðsins í morgun og í hádegisfréttum RÚV krefjast notendasamtökin Hugarafl þess að stjórnendur Krabbameinsfélagsins taki ábyrgð á því að fram hafi komið í fjölmiðlum að starfsmaður hafi glímt við andleg veikindi.
Í tilkynningu á vef Krabbameinsfélagsins segir að upplýsingarnar komi ekki frá félaginu. Athugasemd var gerð við þá fullyrðingu í fréttum Stöðvar tvö fimmtudagskvöldið 3. september og fékk Krabbameinsfélagið þau svör að upplýsingarnar kæmu frá heimildarmanni fréttamannsins.
„Við höfum aldrei sagt til um eðli veikinda umrædds starfsmanns. Það var hins vegar óumflýjanlegt að greina frá því að um mannleg mistök væri að ræða, en ekki kerfislæg eða tæknileg. Það var krafa fjölmiðla og almennings að félagið úrskýrði í hverju mistökin lægju,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. Hún ítrekar hins vegar að ábyrgðin á málinu hvíli á félaginu sjálfu og stjórnendum þess, aldrei á einum starfsmanni.
Kristján Oddsson, fyrrverandi yfirlæknir hjá Krabbameinsfélaginu, sagðist í samtali við mbl.is í gær vera ósáttur við þá afstöðu félagsins að kenna starfsmanni félagsins um þau mistök sem urðu.
„Framkvæmdastjóri og stjórnin bera ábyrgð á starfseminni og ég tel það hreint út sagt ljótt að skella allri ábyrgðinni á einn starfsmann. Það gera allir mistök og það er mannlegur harmleikur fyrir bæði þann sem fær sýnið sitt ranglega greint og þann starfsmann sem gerir mistökin. En hvernig Krabbameinsfélagið hefur brugðist við þessu, með því að firra sig ábyrgð og skella skuldinni á einn starfsmann og ýja svo að því að hann sé andlega veikur – ég þarf ekki einu sinni að hafa orð um það,“ segir Kristján.
Hann segir mikilvægt að fólk átti sig á muninum á mannlegum mistökum og gölluðu kerfi.
„Menn þurfa að skilja á milli mannlegra mistaka og þess kerfis sem sér um þessa skimun. Skimun og árangur af henni byggist fyrst og fremst á því að konur taki þátt í henni og þátttaka hefur verið langt undir viðmiðum. Þá er alveg ljóst að það er ekki hægt að halda áfram með óbreytt skipulag. Félag sem gefur sig út fyrir að vera að berjast gegn krabbameini og berst svo með kjafti og klóm við að halda óbreyttu skipulagi – þar liggur vandamálið, í þessum tvískinnungi og í rauninni í þessari blekkingu,“ segir Kristján.