„Grafalvarleg mistök“

Halla Þorvaldsdóttir (t.v.) og Svandís Svavarsdóttir (t.h.)
Halla Þorvaldsdóttir (t.v.) og Svandís Svavarsdóttir (t.h.) Samsett mynd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það umhugsunarefni að félagasamtök sinni heilbrigðisþjónustu. Þau mistök sem hafi átt sér stað við skimanir hjá Krabbameinsfélaginu séu grafalvarleg og að verið sé að skoða málið ofan í kjölinn. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Eins og áður hefur komið fram fengu á fimmta tug kvenna ranga niðurstöðu um frumubreytingar í leghálsskoðun hjá Krabbameinsfélaginu árið 2018. Ein kona sem greindist ekki með frumubreytingar í skimun hjá félaginu árið 2018 er nú með ólæknandi krabbamein. Svandís ræddi í dag við landlækni, sem hafði verið að funda og fara yfir stöðuna alla helgina. 

Þetta snýst náttúrlega um gæði og öryggi en líka bara grafalvarleg mistök sem þarna hafa verið gerð,“ segir Svandís.

Augljóst að Krabbameinsfélagið ber ábyrgð

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, sagði í samtali við RÚV að augljóst væri að félagið bæri ábyrgð á mistökum við skimun. Félagið hefði áður gefið út að víðtæk endurskoðun hefði verið gerð á þeim sýnum sem starfsmaðurinn sem greindi sýni konunnar greindi. Hann hefði látið af störfum í byrjun árs og væri í veikindaleyfi. Krabbameinsfélagið hefur verið ásakað um að kenna starfsmanninum um mistökin með þeim yfirlýsingum sínum. 

Krabbameinsfélagið vinnur nú að því að endurskoða sex þúsund sýni úr leghálsskoðun eftir að í ljós kom að mistök höfðu verið gerð við greiningu einhverra þeirra. 

Hvorki náðist í Höllu né Svandísi við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert