Engin gögn hafa enn borist til Krabbameinsfélags Íslands frá Sjúkratryggingum Íslands sem staðfesta ummæli fulltrúa SÍ sem lutu að gæðaeftirliti og gæðaskráningu í leitarstarfi félagsins.
„Það er óbreytt staða frá því í gærkvöldi,“ segir Sigríður Sólan, kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins.
Félagið greindi frá því í tilkynningu í gær að sent hefði verið erindi til SÍ um afhendingu gagnanna. Frestur var gefinn til hádegis í dag. Ef SÍ staðfesti ummælin yrði leitarstöðinni lokað.
Sigríður segir að staðan verði tekin í hádeginu varðandi næstu skref þegar kemur í ljós hvort gögnin berast.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sagði við mbl.is í gær að erindinu yrði svarað en vildi annars ekkert tjá sig frekar.
„Ef Krabbameinsfélagið telur ekki rétt að halda starfseminni áfram reikna ég með að þau tilkynni yfirvöldum það,“ sagði María, sem gat ekki rætt við blaðamann í morgun þegar óskað var eftir því.