Krabbameinsfélagið harmar að starfsmaður sem gerði mistök við greiningu leghálssýnis konu sem er nú með ólæknandi krabbamein sé nú nafngreindur í fjölmiðlum. Félagið hefur gert kröfu um að fréttir þess efnis verði fjarlægðar.
Starfsmaðurinn kom fram undir nafni í viðtali við Mannlíf í dag þar sem hún sagði að sér sárnaði málsvörn Krabbameinsfélagsins sem hefur verið gagnrýnt fyrir að kenna henni einni um mistökin.
Í frétt á vef Krabbameinsfélagsins, sem ber fyrirsögnina „Af hverju var starfsmaður nefndur vegna mistakanna“, segir að félagið hafi legið undir ámæli fyrir að greina frá því að mistökin hafi verið gerð af einum starfsmanni. Það hafi ekki verið gert til að koma sök á starfsmanninn, heldur til að skýra í hverju mistökin fólust.
„Þegar málið kom til tals í fjölmiðlum vildi félagið gera allt sem í valdi þess stóð til að forðast að draga starfsmanninn inn í umræðuna. Það var hins vegar ljóst að félagið myndi fá á sig mikla gagnrýni ef það leyndi upplýsingum. Því var mikilvægt að fram kæmi að ekki væri um kerfislæg eða tæknileg mistök að ræða heldur mannleg mistök. Þess vegna var óhjákvæmilegt að fram kæmi að um einn starfsmann væri að ræða þar sem greining leghálssýna fer fram með þeim hætti,“ segir í fréttinni.
Í fréttinni segir að Krabbameinsfélagið hafi sent kröfu um að fréttir þar sem starfsmaðurinn er nafngreindur verði fjarlægðar.
„Félagið vissi að fjölmiðlar hefðu fengið upplýsingar um ætluð veikindi starfsmannsins og myndu birta þær. Staðhæfingar um að Krabbameinsfélagið hafi gefið upp af hvaða toga veikindin voru eru ekki réttar. Áréttað skal að á meðan starfsmaðurinn var að störfum fyrir félagið var gengið út frá því að hann væri heill heilsu og hefði náð sér af veikindunum.
Krabbameinsfélagið hefur verið í góðum samskiptum við starfsmanninn alveg frá því að málið kom upp í sumar og veitt honum stuðning. Framkvæmdastjóri félagsins ræddi aftur við hann í dag til að biðja hann afsökunar á því að hann hefði dregist inn í umfjöllun um málið með þessum hætti og upplýsa hann um hvernig það kom til,“ segir í fréttinni.
Uppfært
Nafn starfsmannsins fyrrverandi hefur verið fjarlægt úr frétt mbl.is í kjölfar athugasemdar starfsmannsins og Krabbameinsfélagsins.