Kristján Oddsson, fyrrverandi yfirlæknir leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, segir Sjúkratryggingar Íslands ekki hafa framkvæmt það eftirlit með starfsemi Krabbameinsfélagsins sem stofnuninni ber að hafa á grundvelli þjónustusamnings.
Kristján var gestur Kastljóss í kvöld, en hann sagði í viðtali við mbl.is á laugardag að Krabbameinsfélagið hefði fórnað heilsufarslegum hagsmunum kvenna fyrir fjárhagslega og ímyndarlega hagsmuni.
Kristján segir að vitneskja um áhyggjur fagmanna hjá Krabbameinsfélaginu af því skipulagi sem er á skimun fyrir leghálskrabbameini hafi legið fyrir hjá SÍ. Á grundvelli þjónustusamnings eiga Sjúkratryggingar Íslands að hafa eftirlit með því að þjónustusamningurinn við Krabbameinsfélagið sé uppfylltur.
Kristján segir SÍ ekki hafa sinnt þessu hlutverki sínu þegar hann starfaði hjá Krabbameinsfélaginu.
„Ég starfaði hjá landlækni í fimm ár og kallaði eftir því að eftirlitið þyrfti að vera miklu kerfisbundnara en það er. Eins og góður maður í ráðuneytinu sagði þegar ég kom og viðraði áhyggjur mínar, það eina sem hann sagði: „Þú ert brattur, þetta félag er með geislabaug,“ segir Kristján.
Hann segir ljóst að fólk treysti félaginu sem hafi vissulega verið í upphafi byggt upp af hugsjónarfólki. Hann telur að félagið hafi villst af leið og sett þá hagsmuni sem því er ætlað að berjast fyrir til hliðar.