Sjúkratryggingar Íslands hafa svarað erindi Krabbameinsfélags Íslands þar sem óskað var eftir því að SÍ sendu gögn til félagsins sem staðfesta ummæli sem lutu að gæðaeftirliti og gæðaskráningu í leitarstarfi félagsins.
„Við höfum svarað erindi þeirra en ég ætla ekki að fara nánar út í það á þessu stigi,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sem vill ekki tjá sig frekar um hvort umrædd gögn hafi verið send.
Hún segir málið í rannsókn hjá embætti landlæknis og að SÍ hafi verið að taka saman gögn sem eiga að fara þangað. „Þetta mál er á viðkvæmu stigi og er til rannsóknar,“ segir hún.
Krabbameinsfélag Íslands óskaði eftir því að fá gögnin í hádeginu í dag. Ef þau myndu staðfesta ummælin yrði starfseminni lokað. Spurð hvað henni finnist um þá afstöðu segir María að skoðun SÍ á því komi fram í svarinu, sem var sent fyrir klukkan 12.