Segja „óábyrgt“ að birta skjalið

Skjal sem Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands fundu er varðar mæl­ing­ar og mark­mið þjón­ustu­samn­ings við Krabba­meins­fé­lagið var ófull­búið vinn­u­gagn. Í því er að finna mis­skiln­ing og ranga hug­taka­notk­un. Embætti land­lækn­is seg­ir óá­byrgt að birta skjalið.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá embætti land­lækn­is, Sjúkra­trygg­ing­um Íslands og Krabba­meins­fé­lagi Íslands.

Full­trú­ar Sjúkra­trygg­inga Íslands (SÍ), Krabba­meins­fé­lags Íslands (KÍ) og embætt­is land­lækn­is funduðu sam­eig­in­lega í dag til að fara yfir skjalið sem er níu blaðsíður. Það var unnið var í des­em­ber árið 2017 af grein­ing­ar­deild Sjúkra­trygg­inga og varðar mæl­ing­ar og mark­mið þjón­ustu­samn­ings við Krabba­meins­fé­lagið. 

„Aug­ljóst er að um­rætt skjal er ófull­búið vinn­u­gagn sem bygg­ir á gögn­um frá KÍ og sam­skipt­um starfs­manna KÍ og SÍ. Í skjal­inu má finna mis­skiln­ing og ranga hug­taka­notk­un enda er krabba­meins­skimun flókið viðfangs­efni og túlk­un efn­is­ins krefst sér­fræðiþekk­ing­ar,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni. 

Um­rætt skjal var sent vel­ferðarráðuneyt­inu í fe­brú­ar árið 2018 án þess að fram kæmi að um vinn­u­gagn væri að ræða en skjalið hafði ekki verið sent Krabba­meins­fé­lag­inu til yf­ir­lestr­ar áður en því var komið til ráðuneyt­is­ins.

Eng­ar upp­lýs­ing­ar sem kalli á viðbrögð

„Aðilar eru sam­mála um að óá­byrgt væri að birta skjalið án nán­ari skýr­inga og at­huga­semda af hálfu KÍ,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni. 

„Það er mat land­lækn­is eft­ir sam­eig­in­lega yf­ir­ferð með SÍ og KÍ að það séu eng­ar upp­lýs­ing­ar í skjal­inu sem kalla á viðbrögð heil­brigðis­yf­ir­valda um­fram þá skoðun sem þegar er haf­in hjá embætti land­lækn­is.“

Eins og mbl.is hef­ur áður greint frá óskaði Krabba­meins­fé­lagið eft­ir gögn­um frá Sjúkra­trygg­ing­um sem rök­styddu um­mæli Tryggva Björns Stef­áns­son­ar lækn­is, sem sinnti á tíma­bili vinnu við gerð kröf­u­lýs­ing­ar um krabba­meins­skiman­ir sem aðkeypt­ur verktaki  Sjúkra­trygg­inga, um að gæðaeft­ir­liti og gæðaskrán­ingu í leit­ar­starfi fé­lags­ins hefði verið veru­lega ábóta­vant. Gögn­in bár­ust ekki og er for­stjóra Sjúkra­trygg­inga ekki kunn­ugt um að um­mæli Tryggva bygg­ist á gögn­um frá Sjúkra­trygg­ing­um.

Eins og áður hef­ur verið greint frá urðu mis­tök í grein­ingu sýna hjá Krabba­meins­fé­lag­inu árið 2018 sem leiddu til þess að kona, sem nú er með ólækn­andi krabba­mein, greind­ist ekki með frumu­breyt­ing­ar þegar hún fór í leg­háls­skimun hjá leit­ar­stöð Krabba­meins­fé­lags­ins. Lögmaður kon­unn­ar hef­ur fengið fleiri sam­bæri­leg mál inn á sitt borð. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka