Málunum gæti fjölgað

Sævar Þór Jónsson, lögmaður.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þau tvö mál sem vísað hefur verið til landlæknis, sem þykja sambærileg máli konu sem fékk ranga niðurstöðu úr leghálsskimun árið 2018, snúa bæði að sýnatökum vegna leghálskrabbameins þar sem sýnataka gaf tilefni til frekari athugunar, en vegna mistaka voru málin ekki skoðuð frekar.

Þetta segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður konunnar sem hyggst nú fara í skaðabótamál við Krabbameinsfélag Íslands.

Sævar segir að of snemmt sé að segja hvort leitað verði skaðabóta í hinum málunum tveimur, sem stendur sé aðeins eitt skaðabótamál þar sem mistök hafi verið viðurkennd. Enn sé verið að athuga nýju málin og í framhaldinu verði ákveðið hvort farið verði út í skaðabótamál.

Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins.
Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Um tuttugu fyrirspurnir

Sævar segist hafa fengið um tuttugu fyrirspurnir inn á sitt borð á síðustu dögum, og fleiri mál verði til athugunar í byrjun næstu viku.

Hann segist telja að málunum geti fjölgað.

Sævar segir að þar sem umbjóðendur sínir treysti ekki Krabbameinsfélaginu hafi mál þeirra verið lögð undir landlækni. Alma Möller landlæknir hafi sagst myndu taka þau fyrir og að mögulega myndi hlutlaus aðili rannsaka málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert