„Hættulegur“ bjór fékk viðeigandi nafn

Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá RVK Brewing, er ánægður með Keisarann.
Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá RVK Brewing, er ánægður með Keisarann. mbl.is/Arnþór

Í heimi handverksbjórs snýst allt um tilraunamennsku. Vinsælt er að nota óvenjuleg hráefni til að prófa sig áfram og að brugga bjór sem er ólíkur öllu sem áður hefur verið gert. Valgeir Valgeirsson hjá RVK Brewing bruggaði um daginn sterkasta IPA-bjór sem bruggaður hefur verið á Íslandi. Nafnið var sótt í einn alræmdasta bar Íslandssögunnar.

„Ég er með bjór sem heitir Hlemmur IPA og hefur fengið mjög fínar viðtökur á börum bæjarins. Okkur datt í hug að koma með viðhafnarútgáfu af Hlemmi, stærri og þar af leiðandi mun hættulegri. Þá kom eiginlega ekkert annað til greina en að kalla hann Keisarann, með vísan til barsins fræga,“ segir Valgeir í samtali við mbl.is.

Valgeir, Nonni Quest og Sigurður Snorrason á RVK Brewing skála …
Valgeir, Nonni Quest og Sigurður Snorrason á RVK Brewing skála fyrir góðu samstarfi. mbl.is/Hari

Keisarinn var opinn við Hlemm um tíu ára skeið, frá 1989 til 1999. Staðurinn komst margoft í fréttir og sjaldnast af góðu. Hann var við hliðina á Tryggingastofnun og forstjóri þeirrar stofnunar kvartaði til að mynda undan samneytinu. Yfirmenn Íslandsbanka, sem var með útibú skammt undan voru sömuleiðis ósáttir. Þá var einhvern tímann gerð athugasemd við slagorð staðarins, „Besti barinn í bænum“. Ekki varð mikið úr kvörtun til samkeppnisyfirvalda þess efnis enda sagði vertinn á Keisaranum að um grín væri að ræða. 

Blaðamaðurinn Eiríkur Jónsson fór í heimsókn á Keisarann sumarið 1999 og greindi frá því að biðröð væri fyrir utan þegar staðurinn opnaði klukkan ellefu. „Þar situr fólk af ýmsu sauðahúsi og kaffidrykkja er ekki áberandi. Stórir bjórar hvíla í höndum flestra. Sumir eru stroknir og fínir, fleiri bíða eftir jólabaðinu,“ skrifaði Eiríkur.

„Ég ólst upp í þessu hverfi og vissi betur en að fara þarna inn. En ég var reyndar bara í menntaskóla þarna undir lokin. Það þekktu samt allir Keisarann á mínum aldri, hann var alræmdur,“ segir Valgeir

Nafnið Keisarinn þótti sem sagt hæfa þessum tilraunabjór Valgeirs sem bruggaður var í félagi við mann sem kallar sig Bjórsmakkarann. Afar takmarkað upplag var framleitt og er það uppselt hjá RVK Brewing en Valgeir segir að enn sé hægt að finna bjórinn á einhverjum bjórbörum í Reykjavík. 

Keisarinn er hvorki meira né minna en 11,1% að styrkleika og er sterkasti IPA-bjór sem bruggaður hefur verið hér á landi að sögn Valgeirs. Raunar er þetta aðeins í þriðja skipti sem bruggaður er Triple IPA-bjór hér á landi og hefur Valgeir komið að gerð þeirra allra. Hinir fyrri voru ÚlfurÚlfurÚlfur sem var hátíðarútgáfa af Úlfi og Dancing into Danger sem RVK Brewing bruggaði í félagi við Malbygg. Valgeir boðar frekara samstarf við Malbygg og segir að á næstunni muni líta dagsins ljós bjórinn Dancing into Darkness sem er Double Black IPA og sjálfsagt nokkuð varhugaverður eins og nafnið gefur til kynna.

Rekstur lítilla brugghúsa er brothættur og hefur kórónuveirufaraldurinn sett strik sinn í reikninginn hjá Valgeiri og félögum hans, rétt eins og mörgum öðrum. RVK Brewing rekur sem kunnugt er bruggstofu í Skipholti. 

„Þetta rúllar nú ágætlega  miðað við allt en við vonum að okkar helstu viðskiptavinir, sem eru aðrir barir og veitingastaðir, fái meira að gera eftir rýmkun á Covid-reglunum. Við höfum í staðinn reynt að fjölga bjórum sem við seljum í ríkinu. Þar hefur Zuzu-bjórinn gengið mjög vel og svo er væntanlegur bjórinn Fornar ástir. Ég bruggaði hann með Nonna Quest, þetta er léttur súrbjór með rifsberjum og vanillu. Við tíndum rifsberin í garðinum hjá þeim hjónum. Svo kemur annar, Verum bara vinir, sem er léttur súrbjór með skyri og ástaraldinum.“

Nú um helgina átti að fara fram hið árlega bjórhlaup RVK Brewing. Hlaupið heppnaðist afar vel í fyrra og tóku margir þátt. Hlaupinu var aflýst vegna ástandsins í þjóðfélaginu í ár. „Okkur fannst ekki viðeigandi að halda hlaupið núna og ákváðum einfaldlega að sýna smá ábyrgð. Við komum tvíefldir og hlaupum aftur á næsta ári,“ segir Valgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert