Ættingjar konu sem lést úr krabbameini, eftir að hafa farið í krabbameinsskimun sem gaf tilefni til frekari skoðunar sem ekki var gerð, hafa vísað máli hennar til landlæknis.
Að sögn RÚV var konan 24 ára þegar hún lést. Hún hafði farið í skimun fyrir leghálskrabbameini hjá Krabbameinsfélagi Íslands árið 2013.
Alls hefur þremur málum verið vísað til landlæknis eftir að mistök komu í ljós við greiningu sýna hjá félaginu.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður þeirra sem ætla í skaðabótamál vegna mistakanna, segir að annað sambærilegt mál verði sent til landlæknis á morgun. Kona hafi ekki verið látin vita af frumubreytingum við skimun árið 2016. Síðar veiktist hún mjög og kom þá í ljós að hún var með ólæknandi krabbamein.
Samtals eru 25 mál á borði Sævars í tengslum við skimun Krabbameinsfélagsins.