Írski fjölmiðillinn Sunday Independent staðhæfir í umfjöllun sinni í dag að Jón Þröstur Jónsson, sem hvarf á Írlandi 9. febrúar í fyrra eftir að hafa tekið spilað póker í Dublin, hafi verið myrtur af öðrum Íslendingi sem hafi átt þá fjármuni sem Jón tapaði í spilunum. Segir blaðið að um sé að ræða íslenskan glæpamann sem hafi fyrir slysni myrt Jón kvöldið örlagaríka.
Upplýsingarnar um þetta bárust til fjölskyldu Jóns frá öðrum manni sem situr nú í fangelsi á Íslandi að sögn blaðsins. Vísir greindi fyrstur íslenskra miðla frá þessum vendingum í málinu.
Ekki náðist í Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjón hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vegna málsins, en hann segir við Vísi að ýmsir þættir málsins séu til skoðunar og lögreglan sé í sambandi við yfirvöld á Írlandi sem fara með rannsókn málsins.
Jón Þröstur fór til Dublin til að taka þátt í pókermóti í byrjun febrúar. Unnusta hans, Jana Guðjónsdóttir, var með í för og höfðu þau hugsað sér að skoða borgina saman að mótinu loknu. Rannsókn málsins hafði í langan tíma lítið sem ekkert miðað áfram frá því björgunarsveit kembdi leitarsvæði í borginni í byrjun mars á síðasta ári og ábending barst um að Jón Þröstur hefði mögulega ferðast með leigubíl.
Fjölskylda Jóns Þrastar hefur frá upphafi lagt sig fram við að reyna að upplýsa hvarf Jóns og hefur reglulega verið í samskiptum við lögregluna í Dublin. Flutti bróðir Jóns meðal annars tímabundið til Dublin vegna málsins.