Atvinnuleysi í sögulegum hæðum

mbl.is/Hari

Atvinnuleysi er nú í sögulegum hæðum og mældist árstíðarleiðrétt atvinnuleysi um 9% í ágúst. Horfur eru dökkar og viðbúið að atvinnulausum fari fjölgandi í vetur. Þá er mikil fjölgun í hópi langtímaatvinnulausra, þ.e. þeirra sem hafa verið án vinnu í yfir 12 mánuði.

Sérstakt áhyggjuefni er að fólk hverfur í auknum mæli af vinnumarkaði og sýna kannanir að fjöldi ungra sem hvorki eru starfandi né í námi hefur fjölgað síðasta árið. Þetta kemur fram í nýrri vinnumarkaðsskýrslu Alþýðusambandsins.

Í skýrslunni segir að viðkvæmar aðstæður hafi þegar ríkt á vinnumarkaði áður en kórónuveiran lét á sér kræla. Þannig hafi um tíu þúsund manns voru atvinnulausir í upphafi þessa árs eða sem jafngildir u 4,8% atvinnuleysi. Hefur það nær tvöfaldast síðan, þrátt fyrir að úrræði á borð við hlutabótaleiðina hafi reynst mikilvæg.

Efla bótakerfi og skapa störf

Í skýrslunni segir að efnahagskreppan sem nú stendur yfir muni einkum bitna á vinnumarkaði og við henni þurfi að bregðast með skýrum vinnumarkaðsaðgerðum. Lagt er til að atvinnuleysistryggingakerfið verði eflt til að mæta áður óþekktu atvinnuleysi hér á landi. Þá verði bótatímabil atvinnuleysistrygginga lengt úr 30 mánuðum í 36 mánuði.

Alþýðusambandið telur mikilvægt að bótakerfi verði efld til að mæta …
Alþýðusambandið telur mikilvægt að bótakerfi verði efld til að mæta áður óséðu atvinnuleysi. Þá þurfi að ráðast í stórfellda atvinnusköpun og fjárfesta í úrræðum sem virkja atvinnuleitendur. mbl.is/Hari

Þá leggur ASÍ til að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar þannig að þær nemi 95% af dagvinnutekjutryggingu (þ.e. lægstu launum fyrir fullt starf). Samfylkingin kynnti fyrr í dag samskonar tillögur í þeim efnum.

Sömuleiðis þurfi að lengja hlutabótaúrræði svo lengi sem þörf er á, minnst til 1. júní 2021. Þá þurfi að ráðast í stórfellda atvinnusköpun til þess að stuðla að fjölgun starfa.

Þá segir Alþýðusambandið að ráðast þurfi í stórfellda atvinnusköpun á næstu árum til að stuðla að fjölgun starfa á vinnumarkaði. Samhliða sé nauðsynlegt að fjárfesta í þjónustu og úrræðum til að virkja atvinnuleitendur og efla færni þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert