Má heita Agok en ekki Theadór

Mannanafnanefnd afgreiðir umsóknir mánaðarlega.
Mannanafnanefnd afgreiðir umsóknir mánaðarlega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héðan í frá má bera karlmannsnöfnin Leonel, Virgil, James, Klettur og Morten, eftir úrskurð mannanafnanefndar þann 21. september síðastliðinn. Þeir sem vilja aftur á móti nefna son sinn Theadór eða dóttur sína Ivy þurfa hins vegar að hugsa dæmið upp á nýtt.

Nefndin mat það enda svo að Theadór sé hvorki í almennu samræmi við íslenskar ritreglur né hefur unnist sérstök hefð fyrir þessum sérstaka rithætti. Fyrir nafninu Ivy er enn síður hefð í íslensku máli og rithátturinn fellur sömuleiðis ekki að almennum ritreglum.

Í stað Ivy mætti þó hugleiða nafnið Agok, sem héðan í frá er gott og gilt stúlkunafn, sem beygist við fyrstu sýn eins og Eik. Þá má nú nefna stúlkur Sofiu, Ragný og Dyljá, enda þótti þetta ýmist falla vel að málinu eða í það minnsta vera orðið að hefð í vissum skilningi. 

Tvö millinöfn voru síðan heimiluð í þessari umferð, Kalddal og Óldal, sem þó er tiltekið að séu ekki ættarnöfn í skilningi laganna. Þó er til ættarnafnið Kaldal. Millinöfn lúta nokkuð ólíkum reglum samanborið við eiginnöfn og mega til dæmis ekki hafa hefðbundna nefnifallsendingu.

Lesa má nánari rökstuðning fyrir hverjum og einum úrskurði hér á þessum málalista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka