Ekki einhugur um mannanafnafrumvarp innan VG

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, var ein þeirra sem …
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, var ein þeirra sem tók til málsum frumvarp dómsmálaráðherra um mannanöfn á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skiptar skoðanir eru innan þingflokks Vinstri grænna um frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um mannanöfn, sem mælt var fyrir í dag. Þetta sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður flokksins, í umræðum á Alþingi.

Verði frumvarpið að lögum verður mannanafnanefnd lögð niður og frelsi til nafngiftar um leið rýmkað til muna. Sömuleiðis verður öllum heimilt að taka upp eftirnafn í stað kenninafns til föður eða móður. Ljóst er að frumvarpið er umdeilt og eru skoðanir þvert á flokkslínur.

Þótt Bjarkey hafi gætt orða sinna mátti öllum sem hlýddu á tíu mínútna langa ræðuna vera ljóst að hún er ekki ýkja hrifin af frumvarpinu.

Bjarkey sagði skoðanir innan flokksins af öllum toga. „Helstu athugasemdir okkar hafa verið varðandi íslenskt mál og kenninafnahefðina. Sumir höfðu athugasemdir um að það mætti taka upp ný ættarnöfn eins og enginn sé morgundagurinn,“ sagði Bjarkey.

„Auðvitað veltir þetta ekki íslenskunni um koll, en [fyrirkomulagið] er samt partur af því að varðveita hana,“ segir hún. Barist væri við enska tungu á mörgum vígstöðvum og í litlu málsamfélagi þyrfti að nýta allar leiðir til að tryggja að íslenska væri viðhöfð.

Þá benti hún á að tekið væri eftir því á erlendri grundu að Íslendingar væru kenndir við foreldra sína, jafnan feður, og að konur bæru ekki eftirnöfn maka sinna.

Lögin komin til ára sinna

Áslaug sagði lög um mannanöfn, sem eru frá 1996, vera komin til ára sinna. Reynslan sýndi að mörgum þættu reglurnar of strangar. Vísaði hún til könnunar Félagsvísindastofnunar frá árinu 2015 þar sem 60% svarenda kváðust vilja rýmka reglurnar, en sú könnun var framkvæmd í tengslum við vinnu að nýjum reglum í innanríkisráðuneytinu. 

Áslaug benti á að íbúasamsetning landsins hefði breyst mikið frá því lögin tóku gildi; erlendum ríkisborgurum fjölgað til muna og upptaka erlendra nafna fyrir vikið aukist. Nokkurri gagnrýni hefði sætt að erlendir ríkisborgarar fengju leyfi fyrir upptöku nafna, sem íslenskir ríkisborgarar fengju ekki.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegið að íslenskri málvenju

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði í umræðu á Alþingi að með frumvarpinu væri vegið sé að íslenskri málvenju. Mikilvægt væri að vernda og varðveita íslenska tungu og reglur um mannanöfn skipuðu þar sess á sama hátt og stafsetningarreglur.

Furðaði hann sig á orðum ráðherra um að fólki væri treystandi til að viðhalda menningu og siðum. Spurði hann hvort ekki fælist mótsögn í því að segjast vilja varðveita íslenska tungu en fela einstaklingum á sama tíma fullkomið frelsi til að stafsetja eigið nafn.

Þá vísaði Birgir til umsagnar dr. Guðrúnar Kvaran, prófessor emeritus í íslensku og fyrrverandi formanns mannanafnanefndar, um áþekkt frumvarp sem lagt var fram fyrir tveimur árum af þingmönnum Viðreisnar og fleiri flokka: „Frumvarpið er ekki liður í að styðja íslenska tungu, eins og margoft hefur verið bent á. Nöfn og beyging þeirra eru jafnmikilvæg og allur annar íslenskur orðaforði og riðlist beygingarkerfið fer að hrikta í stoðum íslenskrar tungu.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tjáði sig um frumvarpið á Facebook í gær og kom þar andstöðu sinni á framfæri. Sagði hann frumvarpið rústa öllum hefðum og benti á að ýmsir, hægrimenn og vinstri-, hefðu áður fært sannfærandi rök gegn svipuðum hugmyndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert