Hægt landris við Krýsuvík

Landrisið í Krýsuvík kom ekki fram í gervitunglagreiningum.
Landrisið í Krýsuvík kom ekki fram í gervitunglagreiningum. mbl.is/Árni Sæberg

GPS-mælingar benda til þess að hægt landris sé að eiga sér stað við Krýsuvík. Þetta segir Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hún bendir á að landris hafi áður verið á þessu svæði enda sé þarna stórt jarðhitasvæði. Hún segir landrisið ekki eins mikið og var við fjallið Þorbjörn og að risið hafi ekki komið fram í gervitunglagreiningum. „Þetta er samt einhver minniháttar breyting sem við höfum verið að fylgjast með,“ segir Kristín.

Óróleikatímabil í gangi 

Spurð hvort landrisið tengist jarðskjálftunum í dag segir hún það ekki vera óhugsandi en lítið sé vitað á þessari stundu.

„Það er einhvers konar óróleikatímabil sem þessi flekaskil sem ganga í gegnum Reykjanesskagann eru núna að ganga í gengum. Það er óvenju mikil skjálftavirkni og svo höfum við verið að sjá mjög skýr merki um innskotavirkni og óskýrari merki um einhverjar færslur,“ greinir hún frá og segir hliðrun vera að eiga sér stað á flekaskilunum, meiri en verið hefur undanfarin ár.

Hún nefnir að virknitímabilið sem núna er í gangi hafi byrjað í febrúar. Svona miklum virknitímabilum fylgi stórir skjálftar. Bendir hún á að á síðustu öld hafi tvö slík tímabil orðið og innan þeirra beggja hafi orðið skjálftar af stærðinni 6 við Brennisteinsfjöll á árunum 1929 og 1968. „Það er töluvert meiri orka í þeim heldur en 5,6,“ segir hún. 

Óvenju mikil gaslykt

Spurð út í næstu skref segir hún að tilkynning hafi borist um óvenju mikla gaslykt og telur Kristín að stóri skjálftinn í dag hafi „rótað aðeins upp í jarðhitakerfinu“.

„Það þarf að fylgjast með því og áfram með þessari aflögun. Það þarf að fylgjast áfram með þessum hættum, þetta er margslungið,“ bætir hún við og á meðal annars við skriðurnar sem skjálftavirknin getur komið af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert